Veturinn hjá Taekwondo deild Aftureldingar hefur verið ævintýri líkastur.
En um helgina stóð deildin uppi sem bikarmeistarar Taekwondosamband Íslands.
Bikarmótaröð TKÍ samanstendur af þremur mótum yfir veturinn. Það lið sem hlýtur flest samanlögð stig úr þessum þremur keppnum vinnur bikarmeistaratitilinn.
Þetta er í fyrsta sinn sem Afturelding vinnur þennan titil og kemur hann í kjölfarið á Íslandsmeistarartitli í bardaga sem vannst í mars, einnig í fyrsta sinn!
Á facebook síðu deildarinnar segir „…Gríðarleg bylting hefur orðið í starfsemi deildarinnar undanfarin 3 ár með tilkomu nýju aðstöðunnar að Varmá og eins því að stór hópur foreldra og iðkenda tryggir að starfsemi og uppbygging deildarinnar dreifist á margar, samhentar, hendur. Hjá okkur er það gleðin og ánægjan sem er í fyrirrúmi og er það ávallt haft á orði á mótum hvað keppendur okkar eru jákvæðir og röggsamir.
Taekwondodeild Aftureldingar er í dag stærsta taekwondodeild landsins og sú lang öflugasta, og vill stjórn deildarinnar þakka þjálfurum fyrir ómetanlegt starf, en ekki síst öllum iðkendunum, frá leikskólaaldri og upp úr, fyrir að vera svona frábærir og duglegir. Án ykkar hefði þessi árangur aldrei náðst 🙂
Stjórn TKD deildar UMFA“
Við óskum taekwondo deild innilega til hamingju með frábæran árangur!