Þriðjudaginn 22. október, s.l. fór fram fyrsta smámót sunddeilda UMFA og ÍA í Lágafellslaug. Mótið var ætlað 10 ára og yngri og hugsað fyrir byrjendur sem eru að taka sín fyrstu sundtök í íþróttinni.
Það var margt um manninn í lauginni en 45 keppendur voru skráðir til leiks að þessu sinni. Keppt var í skrið- og bringusundi og syntu krakkarnir tvær ferðir af hvoru. Það er óhætt að segja að allir hafi staðið sig með prýði og efnilegir sundkappar á ferð.
Þetta smámót var það fyrsta af fjórum sem haldin verða í vetur. Við hófum leik hér í Mosfellsbæ en næsta mót í röðinni fer fram uppi á Skaga í byrjun desember. Eftir áramót verða svo haldin tvö til viðbótar, eitt í Lágafellslaug og annað á Akranesi.
Það er sannarlega spennandi vetur framundan hjá okkur og við hlökkum mikið til!