Kvennalið Aftureldingar eru Bikarmeistari í blaki 2024.
Um síðustu helgi fór fram FINAL4 helgin í Kjörísbikarnum í blaki. Í undanúrslitunum fengu stelpurnar lið Blakfélags Hafnafjarðar og vannst sá leikur 3-0 . Á laugardaginn var síðan úrslitaleikurinn við ríkjandi Íslands-og bikarmeistara KA . Leikurinn var sýndur beint á RUV en síðast þegar RUV sýndi beint frá blakleik var það einmitt á milli þessar tveggja liða þegar þær spiluðu úrslitaleik um Íslandsmeistaratitilinn í maí 2023 og þá vann KA 3-2.
Aftureldingarstúlkur sýndu svo sannarlega að þær voru komnar til að hirða bikarinn góða og taka hann með heim í Mosfellsbæ. Þær sýndu frábæran karakter með því að vinna hrinu 1 og 2 þrátt fyrir að allt liti út fyrir að KA stúlkur væru að vinna. Þær unnu leikinn 3-0 og fóru hrinurnar; 26-24, 25-23 og 25-22.
Thelma Dögg Grétarsdóttir var valin besti leikmaðurinn en hún skoraði 31 stig í þessum leik.
Blakdeildin vill koma á framfæri kærum þökkum til styrktaraðila liðsins í Kjörísbikarnum sem voru: Mosfellsbær, Verslunartækni og Geiri, Fasteignasala Mosfellsbæjar, Allt Fasteignasala, KPMG, Tengi, Play og Lagnabræður.
Ljósmyndir: Mummi Lú