Fyrsti opinberi landsleikurinn í blaki hefur verið spilaður að Varmá.

Blakdeild Aftureldingar Afturelding, Blak

Um helgina fer fram SCA mót í kvennaflokki að Varmá.  (SCA: Small Countries Association)   Mótið er hluti af undirbúningi U21-landsliðs kvenna sem fer til Svartfjallalands 18.-22. maí nk. A landslið kvenna frá Færeyjum, Írlandi og Skotlandi eru mætt ásamt U21 árs liði Íslands.  Í U21 árs liði Íslands eru 4 leikmenn frá Aftureldingu auk fjögurra af 5 starfsmönnum liðsins.  Borja Gonzales er þjálfari og annar  af tveimur aðstoðarþjálfurum hans er Thelma Dögg Grétarsdóttir. Liðsstjóri er Einar Friðgeir Björnsson og sjúkraþjálfari liðsins er Kristín Reynisdóttir. Leikmenn Aftureldingar sem eru í Íslenska liðinu eru: Daníela Grétarsdóttir, Lejla Sara Hadziredzepovic, Rut Ragnarsdóttir og Valdís Unnur Einarsdóttir.

Ísland spilaði fyrsta leikinn á mótinu kl 17:00 í dag við lið Skotlands  og var það jafnframt fyrsti opinberi landsleikur í blaki sem spilaður hefur verið í íþróttamiðstöðinni að Varmá.  Ísland tapaði leiknum 3-1 en stelpurnar sýndu frábæra takta. Næsti leikur Íslands er á morgun, laugardag kl 14:00 við Skotland og síðasti leikurinn er á sunnudaginn kl 17:00 við Færeyjar. Við hvetjum Mosfellinga til að kíkja að Varmá og hvetja Ísland áfram og horfa á ungu stúlkurnar okkar.