KALEO nýr styrktaraðili mfl. karla í knattspyrnu

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding, Knattspyrna

Mosfellska hljómsveitin KALEO mun næstu tvö árin vera með aðalauglýsinguna framan á búningum meistaraflokks karla hjá Aftureldingu. Afturelding mun í sumar leika í Lengjudeildinni í knattspyrnu og merki KALEO mun vera framan á treyjum liðsins. Um er að ræða sögulegan samning þar sem ekki er vitað til að heimsfræg hljómsveit hafi áður auglýst framan á búningum félags á Íslandi. KALEO á aðdáendur úti um allan heim og búast má við að Aftureldingar treyjur með merki KALEO muni seljast í öllum heimshornum í sumar. Þrír af meðlimum KALEO spiluðu fótbolta með yngri flokkum Aftureldingar og stórsöngvarinn Jökull Júlíusson var liðtækur leikmaður áður en hann hætti eftir 3. flokk til að einbeita sér að tónlistinni. KALEO gaf í síðustu viku út nýja plötu ,,Surface Sounds“. ,,Tengingin við Mosfellsbæ er alltaf óendanlega sterk og við höfum alltaf fundið fyrir miklum stuðning frá sveitungum okkar. Þetta er því frábært tækifæri til að gefa tilbaka og einfaldlega heiður að starfa með mínu uppeldisfélagi! Það hefur verið ótrúlega gaman að sjá félagið vaxa síðustu ár og verður gaman að fylgjast með framhaldinu,“ segir Jökull Júlíusson. Gísli Elvar Halldórsson, formaður meistaraflokksráðs hjá Aftureldingu segir: ,,Það er algjörlega frábært sjá KALEO styðja við liðið sitt með þessum hætti og gera við okkur flottan styrktarsamning. Það er mikil tenging á milli Aftureldingar og KALEO og meðal annars er lag frá þeim er alltaf spilað undir þegar liðið gengur inn á Fagverksvöllinn. Svo er ekki verra að liðið spili í svölustu treyju landsins og þó víðar væri leitað a.m.k. næstu tvö árin.“

Mynd:

Mosfellingur – Raggi Óla

Á myndinni eru Gísli Elvar Halldórsson formaður meistaraflokksráðs karla, Jökull Júlíusson og Magnús Már Einarsson þjálfari Aftureldingar í nýju búningunum.