2-1 í einvíginu – sigur á HK 3-0 í dag

Blakdeild Aftureldingar Blak

Afturelding spilaði frábærlega í dag þegar liðið lagði HK á heimavelli sínum að Varmá í Mosfellsbæ. Það var ljóst frá fyrstu hrinu í hvað stefndi enda vann Afturelding fyrstu hrinu 25-15. Lið HK saknaði Fríðu Sigurðardóttur sem komst ekki í leikinn í dag en hennar stöðu leysti hin gamalreynda Ingibjörg Gunnarsdóttir ágætlega. Afturelding hamraði járnið í hrinu tvö og vann liðið hana stórt 25-11. 
Þriðja hrina leiksins byrjaði vel. HK náði góðu forskoti í byrjun hrinunnar en Afturelding þjarmaði að HK hægt og sígandi, jafnaði 12-12 og komst yfir 16-12. Hrinan endaði 25-19 fyrir Aftureldingu sem vann þá leikinn 3-0.
Thelma Dögg Grétarsdóttir skoraði mest heimaliðsins eða 17 stig. Í liði HK var Elísabet Einarsdóttir stigahæst með 8 stig. 
Fjórði leikur liðanna fer fram í Fagralundi í Kópavogi næstkomandi þriðjudag kl. 19.15. Með sigri í þeim leik tryggir Afturelding sér Íslandsmeistaratitilinn 2016.