Blakið að Varmá – glæsileg viðbót!

Ungmennafélagið AftureldingBlak

Frá því að blakdeild Aftureldingar tefldi fram liði í efstu deild á Íslandi hefur Afturelding ávallt verið í keppni um efstu sætin í úrvalsdeild kvenna. Í haust var ákveðið að spila á ungu og reynsluminna liði bæði í meistaraflokki karla og kvenna með aðstoð frá eldri og reyndari leikmönnum. Markmiðið var og er að spila á heimafólki. Kvennaliðið situr nú í 4. sæti deildarinnar og karlaliðið í 3. sæti þegar nokkrar umferðr eru eftir.

Leikmenn og stjórn blakdeildar hafa lengi beðið eftir því að gólfið í sal 3, gamla salnum að Varmá, yrði endurnýjað og rættist draumurinn um jól og áramót þegar Mosfellsbær í samstarfi við Aftureldingu settu á glæsilegt gólf og eru leikmenn ákaflega ánægðir með undirlagið og ekki síður yfir því hversu birtan í salnum eykst og umgjörðin svo miklu betri og flottari.
Snemma var farið að ræða það að gera eins og gert er víða erlendis, að hafa myndir af leikmönnum hangandi í salnum þar sem blakið æfir og keppir og fóru leikmenn meistaraflokkanna í fjáröflun til að fjármagna það verkefni. Blakdeildin hefur nú látið útbúa fána með myndum af öllum leikmönnum okkar í efstu deildum, bæði karla og kvenna. Jakob Jóhannson grafískur hönnuður sá um alla vinnu og hönnun á fánunum og má sjá afraksturinn í opnu blaðsins í dag þar sem við erum með kynningu á leikmönnum okkar.

Við erum ákaflega ánægð með útkomuna og vonumst við til þess að fá að setja fánana upp í salinn þar sem við æfum og keppum, bæði til að hafa fyrirmyndir okkar sýnilegar yngri iðkendum en einnig myndi það að okkar áliti gera salinn enn flottari og heimavöllinn okkar svo sannarlega að Aftureldingargryfju.
Bæði karla- og kvennaliðið eru komin áfram í 8-liða úrslit Kjörísbikarsins og eiga þau bæði leik í vikunni. Karlaliðið á útileik við lið Álftaness í kvöld (fimmtudag) kl. 19:00 og á sunnudaginn fær kvennaliðið HK í heimsókn og hefst leikurinn kl. 15:00 að Varmá.

Við hvetjum Mosfellinga til að mæta á leikina og hvetja okkar lið því sigur í þessum leikjum gefur miða í „Final 4“ helgina sem spiluð verður í Digranesi 22.-24.mars nk. svo það er til mikils að vinna.

Þjálfari kvennaliðs Aftureldingar í blaki er Piotr Poskrobko og þjálfari karlaliðsins er Piotr Kempisty sem spilar einnig með liðinu og er númer 15 á mynd með karlaliðinu.
Áfram Afturelding!

Gunna Stína Einarsdóttir
Formaður blakdeildar Aftureldingar

Grein þessi var birt í Mosfellingi 21. febrúar 2019