Kveðja frá Aftureldingu

Ungmennafélagið Afturelding Blak

Þann 31. október lést Mundína Ásdís Kristinsdóttir.

Munda hefur fylgt blakdeild Aftureldingar frá stofnun hennar.  Hún var sjálf leikmaður, síðar sjálfboðaliði, alltaf vinkona og einstök félagskona, auk þess að sinna svo ótal mörgum hlutverkum fyrir félagið. Munda vann afskaplega óeigingjarnt starf fyrir blakíþróttina, bæði hér í Mosfellsbæ, en hún fór einnig í fjölmargar ferðir fyrir hönd Blaksambands Íslands, sem sjúkraþjálfari landsliðsins.

Það var alltaf hægt að leita til Mundu. Hún var óviðjafnanlegur viskubrunnur og lét sér ákaflega annt um heilsu leikmanna, bæði líkamlega og andlega. Mundu verður sárt saknað og það er mikill missir að henni. Eitt er það þó sem hún hefur kennt okkur öllum og það er, að með baráttuna að vopni förum við langt. Hún gafst aldrei upp, hvorki í veikindum sínum né inni á vellinum.

Ungmennafélagið Afturelding sendir fjölskyldu og vinum Mundínu innilegar samúðarkveðjur.

Þann 2. nóvember mætir kvennalið Aftureldingar KA að Varmá. Leikurinn hefst klukkan 18 og verður frítt inn. Fyrir leik ætlum við öll að minnast Mundu saman.