Með fullt hús stiga í deildarkeppninni !

Blakdeild Aftureldingar Blak

Afturelding og HK mættust að Varmá í kvöld í lokaleik deildarkeppni Mizunodeildar kvenna í blaki. Fyrir leikinn höfðu HK og þjálfari HK, Guðbergur Eyjólfsson, komust að samkomulagi um að hann léti af störfum og er það Einar Sigurðsson sem mun stýra HK liðinu í úrslitakeppninni og mun Þórey Haraldsdóttir vera honum til aðstoðar.

Aftureldingarkonur höfðu fram að þessum leik unnið alla sína leiki í deildinni og varð engin breyting á því í kvöld. Jafnt var á með liðunum í byrjun fyrstu hrinu en fljótlega náði Afturelding undirtökunum og vann hrinuna nokkuð auðveldlega 25-13. Í annari hrinu var jafnt á öllum tölum en í stöðunni 16-16 náði HK góðri rispu og komust í 21-16. Afturelding gaf þó ekkert eftir og kom sér inní leikinn aftur og kláraði hrinuna 25-22 og kom síðasta stigið í hrinunni eftir frábæra hávörn hjá Fjólu Rut Svavarsdóttur. Í hrinu 3 var einnig jafnt með liðunum en Afturelding tók forystuna þegar leið á hrinuna og tryggði sér sigur í hrinunni 25-21 og vann leikinn 3-0.

Hjá Aftureldingu voru það ekki síst sterkar uppgjafir Karenar Bjargar Gunnarsdóttur sem HK átti í erfiðleikum með og var hún stigahæst í liði Aftureldingar með 13 stig og þær Fjóla Rut Svavarsdóttir og Zaharina Filipova með 8 stig. Hjá HK var Laufey Björk Sigmundsdóttir stigahæst með 12 stig og þær Fríða Sigurðardóttir með 7 stig og Ingibjörg Gunnarsdóttir með 6 stig.

Framundan er úrslitakeppni efstu liðanna og þar munu Afturelding mæta Þrótti Neskaupsstað og í hinum undanúrslitaleiknum eru það HK og Stjarnan sem mætast. Fyrstu leikir undanúrslitanna verða leiknir laugardaginn 11. apríl kl. 14:00.

http://sporttv.is/blak/thaer-veittu-mikla-motspyrnu-segir-karen-leikmadur-aftureldingar