Sigur hjá stelpunum, tap hjá strákunum á móti Stjörnunni.

Blakdeild Aftureldingar Blak

Mizunodeildin blaki – Tvíhöfði að Varmá

Á föstudagskvöld fór fram tvíhöfði í Mizunodeildinni í blaki þegar Afturelding og Stjarnan áttust við í karla- og kvennaflokki. Leikið var að Varmá í Mosfellsbæ.
Í fyrri leik kvöldsins léku karlalið félaganna og byrjaði Afturelding leikinn betur og komust í 16-8. Stjörnumenn tóku þá við sér og náðu að snúa hrinunni sér í vil og unnu hrinuna 25-22. Stjörnumenn voru síðan sterkari í næstu tveimur hrinum og unnu þær 25-16 og 25-13 og leikinn 3-0. Stigahæstir í liði Stjörnunnar voru þeir Emil Gunnarsson með 11 stig og Kristófer Ólason Proppé með 9 stig. Hjá Aftureldingu voru Viktor Emile, Björgvin Vigfússson og Ismar Hadziredezpovic, allir með 4 stig. Stjarnan er í öðru sæti deildarinnar með 16 stig en Afturelding er neðst með 2 stig.

Í seinni leik kvöldsins áttust við kvennalið félaganna og Afturelding byrjaði leikinn betur en Stjörnustúlkur komu til baka og komust yfir. Afturelding var sterkari í lok hrinunnar og voru það ekki síst uppgjafir Aftureldingar sem voru að skapa vandræði hjá Stjörnunni. Afturelding vann hrinuna 25.16. Stjörnukonur voru ákveðnar í hrinu tvö og voru með frumkvæðið í hrinunni en Afturelding stigu upp í lok hrinunnar og kláruðu hana 25-22. Í þriðju hrinu var Afturelding með öll völd og kláraði hrinuna örugglega 25-12 og leikinn 3-0. Afturelding er í efsta sæti deildarinnar með 33 en Stjarnan er í þriðja sæti með 18 stig.
Stigahæstar í liði Aftureldingar voru þær Zaharina Filipova með 13 stig og Karen Björg Gunnarsdóttir 8 stig. Hjá Stjörnunni voru stigahæstar Ásthildur Gunnarsdóttir með 7 stig og Valdís Lilja Andrésdóttir með 5 stig