Magnaður árangur á Vormóti

Fimleikadeild Aftureldingar Fimleikar

Síðustu helgi (21 og 22. maí) fór fram Vormót í hópfimleikum.

Vormótið er síðasta mótið á keppnistímabilinu og áður en reglur nýlega breyttust þá var þetta alltaf Íslandsmót þar sem sterkustu lið landsins koma saman og keppa í getu og aldursskiptum flokkum. Það var umtalað á mótinu hvað liðin frá Aftureldingu stóðu sig vel, stuðningsmenn voru flottir og hversu fagleg vinnubrögð þjálfara voru á staðnum. Íþróttafélagið Afturelding fékk mörg jákvæð prik yfir þessa helgi.

Fimleikadeild Aftureldingar sendi 8 lið á mótið sem stóðu sig öll vel og höfðu virkilega gaman eins og má sjá á Instagraminu okkar.

https://www.instagram.com/fimleikadeild_aftureldingar/?hl=en

Hérna koma svo myndir og texti fyrir öll þau lið sem voru að keppa fyrir hönd deildarinnar.

Einnig má nálgast niðurstöður og einkunni á einstökum áhöldum hér: https://live.sporteventsystems.se/

Þetta eru flottar stelpur í 4. flokk hjá okkur og þær kepptu í stökkfimi sem er alveg eins og hópfimleikar nema að kröfurnar eru ekki eins háar og veitt eru verðlaun fyrir einstök áhöld. Það kepptu 7 lið í þessum flokki og sigruðu stelpurnar okkar dýnustökkin.

Ungar og hressar dömur í 5. flokk hjá okkur sem kepptu í stökkfimi og enduðu í 3. sæti í samanlögðu en það munaði mjög litlu að þær næðu í 2. sætið. Þjálfarinn þeirra elskar hvað þessar stelpur eru hressar og skemmtilegar.

Hérna erum við með mynd af stelpum sem eru í 4. flokk. Það kom flottur stuðningshópur með stelpunum sem hvöttu þær alla leið í 3. sætið. Þær komu þjálfurum sínum hressilega á óvart með frammistöðu sinni og allir gengu brosandi út úr höllinni.

Þessar krúttbombur eru í 5. flokk hjá okkur, kepptu í hópfimleikunum B deild. Þar keppa 9 lið og ákveðnin í þessum dömum skilaði þeim 2. sæti. Þjálfararnir voru virkilega stolltir af þeirra frammistöðu og ekki hægt að sjá annað á myndinni en að stelpunum hafi liðið eins.

Þessir gaurar eru eitur harðir og komnir á allt annan stað en önnur lið á sama aldri. Þeir eru núverandi Bikarmeistarar í KKY flokki í hópfimleikum og það var ekkert öðruvísi á þessu móti þar sem þeir tóku gullið með sér heim. Þeir eru miklir vinir, mæta á allar æfingar og hörku duglegir. Það verður gaman að sjá hvar þeir standa í framtíðinni.

Hérna erum við að tala um unga drengi sem vildu prófa fimleika og fengu þjálfara sem var virkilega metnaðarfullur. Þjálfarinn smitaði þá af jákvæðri orku og skellti sér á mót með drengina. Þeir kepptu í stökkfimi í tveimur liðum til þess að elta settar reglur og voru þar með skráðir í A og B deild. Bæði liðin tóku gullið heim eftir spennandi keppni.

Þá er komið að stelpum sem kepptu í hörðustu deildinni á mótinu 4. flokkur A í hópfimleikum. Þær stóðu sig eins og hetjur á mótinu og gáfu ekkert eftir sem skilaði þeim í 5. sætið. Flottar stelpur sem eiga helling inni og það verður virkilega gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Þessar dömur ætluðu sér stórt á þessu móti og aldeilis gerðu það. Þær kepptu í 5. flokki A deild og aldeilis tóku gullið með sér heim og voru 3,6 stigum yfir 2. sætinu sem er gríðalegur munur og alls ekki algengt að sjá í svona harðri deild.