Strákarnir sigruðu mótið !

Fimleikadeild Aftureldingar Fimleikar

Helgarnar 26. til 27. febrúar og 12. til 13. mars fór fram Bikarmót unglinga á vegum Fimleikasambands Íslands. Fimleikadeild Aftureldingar skráði 13 lið á mótið eða 118 krakka á aldrinum 9 til 14 ára sem er met skráning hjá félaginu á eitt mót. Fimleikadeildin hefur verið að vinna að faglegri og betri þjónustu með því að ráða inn sterka þjálfara og breyta skipulaginu innan deildarinnar. Þessar breytingar hafa verið að skila flottum árangri sem sýnir sig bæði í iðkendafjölgun deildarinnar, ánægju innan hópa og bætingar á mótum. Þjálfarar liðanna segja að sín lið hafi náð öllum settum markmiðum á Bikarmótinu og að sum lið hafi bætt um betur og orðið bikarmeistarar. Fimleikadeildin hefur í 2 ár unnið markvisst að fjölgun drengja inn í félagið og það hefur ekki bara fjölgað drengjum eftir að sú vinna hófst heldur urðu öll þrjú drengjaliðin sem við sendum á Bikarmótið bikarmeistarar. Þau lið sem kláruðu mótið sem bikarmeistarar eru KKE, KKY og hópur sem heitir UK 3 og kepptu í stökkfimi og þar í flokki sem heitir KKY.

KKE eða elstu drengirnir okkar.

Þessir strákar hafa verið að æfa misjanflega lengi hjá fimleikadeildinni eða í 3 til 5 ár. Þeir hafa lengi verið elstir hjá deildinni enda virkilega flottar fyrirmyndir. Liðið heitir KKE (keppnishópur karla eldri) sem er nafnið á þeim flokki sem þeir keppa í. Helgina 26. og 27. febrúar urðu þeir óumdeildir bikarmeistarar í annað sinn og sigruðu á öllum áhöldum. Það er virkilega gaman að fylgjast með hópnum en þeir eru mjög góðir félagar þrátt fyrir breytt aldursbil. Vinátta þeirra dafnar í gegnum þann metnað sem þeir hafa í fimleikum og þann stuðning sem þeir veita hvor öðrum. Ef við sjáum ekki nokkra frá hópnum í landsliði á komandi haustönn þá sjáum við þá kláralega þar árið 2024.

KKY eða yngri drengjahópurinn.

Nýbakaðir meistarar og engin vafi á þeim árangri þar sem þeir sigruðu á öllum áhöldum. Það var umtalað á mótinu meðal dómara og áhorfenda hvað drengjahópurinn frá Aftureldingu væri flottur og gengu margir félagsmenn Aftureldingar út úr höllinni, fullir af stolti. Þessir drengir eru allir fæddir 2011 og hafa verið að æfa saman sem hópur í rúmlega eitt ár. Þeir eiga eftir að keppa í sama flokki út vorönnina og halda svo áfram næsta vetur svo það verður gaman að fylgjast með.

UK 3 sem er yngsti drengjahópurinn.

Fimleikadeildin reynir alltaf að hafa félagið opið fyrir sem alla sem vilja æfa, haustönn 2021 var stofnaður æfingarhópur fyrir eldri drengi sem hafa aldrei verið í fimleikum og vilja æfa. Skráningin byrjaði rólega en svo eftir smá tíma voru komnir fleiri strákar inn í hópinn. Þjálfari hópsins Stefán Ísak Stefánsson tók svo á skarið og vildi skrá drengina á Bikarmót í stökkfimi þar sem kröfurnar eru sveigjanlegri en í hópfimleikum og gott mót til þess að keppa í fyrsta skipti. Mikil spenna myndaðist og þar með áhugi á að bæta sig sem varð til þess að drengirnir fóru á mótið og sóttu þriðja Bikarmeistartitilinn. Það verður virkilega gaman að fylgjast með þessum drengjum í framtíðinni.