Handknattleiksmaðurinn Elvar Ásgeirsson hefur samið við þýska efstudeildarliðið TVB 1898 Stuttgart til tveggja ára. Hann yfirgefur Aftureldingu eftir núverandi keppnistímabil og flytur til Þýskalands í sumar. Elvar dvaldi hjá Stuttgart-liðinu í nóvember við æfingar og í framhaldinu buðu forráðamenn félagsins honum samning sem nú hefur orðið að veruleika. Síðustu endarnir voru hnýttir fyrir helgina.
Elvar er 24 ára gamall og hefur alla tíð leikið með Aftureldingu, m.a. upp yngri flokkana og verið síðustu árin einn burðarása meistaraflokksliðsins sem um þessar mundir situr í fimmta sæti Olís-deildarinnar og er komið í átta liða úrslit bikarkeppninnar. Elvar er markahæsti leikmaður Aftureldingar í Olís-deildinni með 77 mörk eftir 15 leiki.
„Mig hefur dreymt um leika í þýsku búndeslígunni síðan ég var lítill svo segja má að draumur rætist með þessu samkomulagi,“ sagði Elvar í samtali við mbl.is. „Ég er gríðarlega ánægður með að hafa náð samkomulagi við Stuttgart.“
Elvar segist hafa heimsótt félagið í og æft með liði þess. „Mér líst hrikalega vel á allar aðstæður hjá liðinu. Allt virðist vera til alls. Aðstæður eru fyrsta flokks auk þess sem það ákveðin fjölskyldustemning yfir öllu. Ég er viss um að ég a eftir að stíga framfaraskref á næstu árum,“ sagði Elvar.
„Ég geri mér grein fyrir að það verður mikið stökk fyrir mig að fara úr deildinni hér heima og í harðan heim í þýska handboltanum. Ég verð að leggja hart að mér á næstu vikum og mánuðum til þess að stimpla mig inn í deildina þegar ég mæti til leiks. Fram undan hjá mér er hins vegar að ljúka keppnistímabilinu af krafti með Aftureldingu og kveðja liðið mitt með titlum,“ sagði Elvar.
Lesa má fréttina í heild sinni á mbl.is
Afturelding óskar Elvari til hamingju með þennan stóra áfanga og óskar honum alls hins besta á atvinnumannaferlinum á næstu árum!