Gott gengi Aftureldingar á Eyjablikkmóti 5. flokks

Ungmennafélagið Afturelding Handbolti

Eyjablikksmótið í umsjón ÍBV var haldið í Vestmannaeyjum 1.-3. nóvember. Afturelding átti þrjú eldra árs lið á mótinu, tvö drengjalið og eitt stúlknalið skipuð 25 iðkendum, sem öll stóðu sig mjög vel. Afturelding 1 sigraði í 1. deild með fullt hús stiga. Afturelding 2 varð í öðru sæti í 3. deild B og stúlknaliðið hafnaði einnig í öðru sæti í 2. deild B.

Mótið var í alla staði vel heppnað og var góð stemming allsráðandi, innan vallar sem utan, þar sem leikgleðin skein úr hverju andliti. Það var svo mikið um dýrðir þegar Lands- og Pressulið mótsins öttu kappi á keppnisvelli meistaraflokka ÍBV á laugardagskvöldið með alvöru umgjörð og fullt hús af áhorfendum.

Afturelding átti þrjá fulltrúa í leiknum: Sindra Sigurjónsson og Lovísu Guðrúnu Sigurðardóttir sem spiluðu með Pressuliðinu og Hauk Guðmundsson sem spilaði með Landsliðinu. Leikurinn var fjörugur og var vel tekist á. Krökkunum þótti gaman að taka þátt í þessu verkefni sem fer í reynslubanka þeirra.