Það var sannkölluð karateveisla þegar 6. smáþjóðamótið í karate (Small States of Europe Karate) var haldið í Laugardalshöll helgina 14. – 15. september, en þetta er í fyrsta sinn sem mótið er haldið á Íslandi. Mótið var þar stærsta sem haldið hefur verið á Íslandi hingað til en alls voru 212 keppendur skráðir í 478 skráningum. Fyrir hönd Íslands var landsliðsfólkið Oddný og Þórður valið til að keppa auk Þorgeirs, Gunnars og Dóru sem eru í yngri flokkum en þau hafa tekið þátt í undirbúningi fyrir keppni síðan í vor.
Bestum árangri náði landsliðskonan okkar Oddný Þórarinsdóttir en hún vann gull og varð Smáþjóðamótsmeistari í hópkata 14-15 ára stúlkna ásamt félögunum Eydísi og Sunnu úr Fjölni. Jafnframt vann Oddný silfur í einstaklingskata 14-15 ára stúlkna eftir gríðarlega naumt tap á móti landsliðskonunni Anne Steinmetz frá Lúxemburg en Oddný tapaði með 22,94 stig á móti 22,96 stig Steinmetz eða aðeins 0,02 stiga mun.
Þorgeir Björgvinsson keppti í einstaklingskata 13 ára og vann verðskuldað silfur. Hann keppti einnig í hópkata með félaga sínum úr Aftureldingu Gunnari Haraldssyni og Kjartani úr Fjölni og saman unnu þeir til bronsverðlauna.
Þórður Jökull Henrysson keppti í einstaklingskata 16-17 ára og vann hann til bronsverðlauna eftir að hann laut í lægra haldi fyrir smáþjóðamótsmeistaranum Matthew Vella frá Möltu með 0,18 stiga mun. Hann vann svo bronsverðlaunin örugglega á móti Maltverjanum Petrov Dimitar. Þórður keppti einnig í fullorðinsflokki í einstaklingskata en það var fjölmennasti flokkurinn í kata með 19 keppendur. Þórður komst nokkuð örugglega í gegnum fyrsta niðurskurð og í annarri umferð vann hann réttinn til að keppa um brons. Þar keppti hann á móti landsliðsmanninum Arnold Chep frá Mónakó sem vann nokkuð örugglega og því lenti Þórður í fimmta sæti í þessum sterka flokki.
Yngsti keppandinn frá Aftureldinginu var hin efnilega Dóra Þórarinsdóttir. Hún keppti í flokki 12 ára og yngri í einstaklingskata. Hún laut að þessu sinni í lægra haldi fyrir íslensku stúlkunni Trixie Tugot í keppni um bronsið og því var fimmta sætið hennar.
Íslenska liðið stóð sig í heild afar vel og vann alls til 10 gullverðlauna á mótinu en var með flest verðlaun allra þjóða eða 57. Hér má lesa frétt á vefmiðlinum mbl.is um seinni dag mótsins þegar liðakeppnin fór fram. Hér má nálgast úrslit mótsins.
Á myndina hér að ofan má sjá Gunnar Haraldsson, Þorgeir Björgvinsson, Þórð Jökul Henrysson og Oddnýju Þórarinsdóttir. Á myndina vantar Dóru Þórarinsdóttur.