Dramatískar lokamínútur á Varmárvelli

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Valur byrjaði leikinn með látum, Hallbera Guðný Gísladóttir tók aukaspyrnu frá vinstri og eftir atgang við vítateigslínu hrökk boltinn innfyrir þar sem Elín Metta Jensen var fyrst að átta sig og kláraði færið vel og staðan orðin 0-1 eftir aðeins þrjár mínútur.

Afturelding sótti í sig veðrið eftir þessa slæmu byrjun og Edda María Birgisdóttir átti skot yfir eftir aukaspyrnu eftir um 20.mínútna leik. Valur átti einnig nokkur hálffæri en Mist Elíasdóttir var vel á verði í markinu. Mist þurfti þó að taka vel á því þegar hún bjargaði í tvígang frá Elínu Mettu.

Rétt á eftir átti Sigríður Þóra Birgisdóttir laglega stungu á Courtney Conrad sem kom með fyrirgjöf á nærstöng sem Stefanía Valdimarsdóttir setti í stöng af stuttu færi. Valur svaraði með skyndisókn og Mist varði vel þrumuskot frá Svövu Rós Guðmundsdóttur og var það síðast færi fyrri hálfleiks.

Í upphafi síðari hálfleiks átti Courtney gott skot að marki og nokkru síðar varði Mist glæsilega frá Ólínu Viðarsdóttur. Eftir 65.mínútna leik kom jöfnunarmark Aftureldingar. Kristún sendi boltann fram á Stefaníu sem lagði hann fyrir Eddu Maríu sem lét vaða af hátt í 40 metra færi og skoraði yfir markmann Vals sem hafði hætt sér of framarlega.

Stuttu síðar fékk Afturelding aukaspyrnu á svipuðum staða og Edda María skoraði frá og Hrefna Guðrún Pétursdóttir tók spyrnuna og setti fastan bolta á markið sem Þórdís markmaður Vals varði frábærlega í slá.

Við þetta tóku Valskonur við sér aftur, Ólína skoraði mark sem réttilega var dæmt af vegna rangstöðu og gestirnir áttu fleiri lofandi spretti án þess að skapa of mikla hættu uppvið mark heimaliðins.

Undir lok leiksins gekk svo mikið á, Kristín Þóra Birgisdóttir átti skot yfir eftir góða Aftureldingarsókn og stuttu síðar varð misskilningur milli varnarmanns og markmanns Vals og sending til baka rann framhjá stönginni og afturfyrir. Eftir hornið fékk Lilja Dögg Valþórsdóttir boltann en setti hann yfir.

Þegar leiktíminn var að renna út fékk Valur hornspyrnu og Kristín Ýr Bjarnadóttir reis hæst í markteig og skoraði sigurmark Vals á ögurstundu og tryggði þeim þar með þrjú mikilvæg stig en Afturelding sat eftir með sárt ennið í leik sem við áttum annað stigið svo sannarlega skilið.

Lið Aftureldingar:
Mist
Steinunn (Dagrún 82) – Hrefna – Kristrún – Inga
Heiðrún – Lilja – Edda
Stefanía (Kristín Þóra 85) – Sigga – Courtney