Enn meiri spenna við toppinn eftir tap gegn Gróttu

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Grótta vann leikinn 2-1 og eftir önnur úrslit kvöldsins er orðið ansi fróðleg staðan við toppinn og mörg lið farin að blanda sér í baráttuna.

Leikurinn var í jafnvægi til að byrja með en smám saman jókst sóknarþungi okkar manna og eftir rúmar 10 mínútur skoraði Elvar Ingi að því menn héldu en aðstoðardómarinn sá eitthvað athugavert og Kristinn Jakobsson dómari leiksins dæmdi markið af.

Eftir þetta kom hvert færið á fætur öðru hjá Aftureldingu, Alexander Aron og Þorgeir Leó voru báðir aðgangsharðir og Helgi Sigurðsson komst í dauðafæri eftir snarpa sókn Þorgeirs upp allan völl. Það kom því einsog skrattinn úr sauðarleggnum þegar Gróttumenn náðu forystunni með skoti utan teigs og staðan 1-0.

Grótta átti tvo, þrjá sénsa um miðjan hálfleikinn uppúr föstum leikatriðum en annars var leikurinn eign okkar manna og átti Helgi Sig t.d. tvö dauðafæri í kringum fertugustu mínútu. Með meiri nákvæmni í spili og sendingum hefði staðan getað orðið allt önnur og okkur í hag en Grótta hélt forystunni til leikhlés.

Síðari hálfleikur var rólegur til að byrja með og lítið fréttnæmt fyrsta hálftímann eða svo. Þá kom loks að því að okkar menn skoruðu og var þar á ferðinni Elvar Ingi Vignisson eftir laglega skyndisókn hans og Helga sem átti stoðsendinguna. Grótta átti einnig sín færi og sum hver býsna hættuleg og undir lok leiksins unnu þeir boltann á hættulegum stað og náðu forystunni á ný.

Afturelding pressaði mjög í restina og gestirnir björguðu m.a. á línu í uppbótartíma en ekki vildi tuðran inn og Grótta fagnaði 2-1 sigri.

Afturelding er enn í öðru sæti en nú á KV möguleika á að komast uppfyrir okkar menn. Næsti leikur er svo gríðarlega mikilvægur leikur gegn toppliði HK í Kópavogi á laugardaginn eftir viku.