Formaður KSÍ í heimsókn hjá Aftureldingu

Knattspyrnudeild Afturelding, Knattspyrna

Guðni Bergsson, formaður Knattspyrnusamband Íslands, kom í heimsókn til knattspyrnudeildar Aftureldingar sl. miðvikudag. Guðni fékk kynningu á starfi deildarinnar og leit við á æfingu hjá iðkendum félagsins.

Meðal þeirra mála sem voru til umræðu á fundi knattspyrnudeildar og formanns KSÍ voru samningamál félaga gagnvart ungum og efnilegum leikmönnum, reglur varðandi úthlutun á styrkjum til aðildarfélaga KSÍ, aðstöðumál félagsins og fleiri mál.

Fram kom í máli Guðna á fundinum að ljóst væri að mjög metnaðarfullt starf færi fram í barna- og unglingaráði Aftureldingar. Það muni styrkja stöðu félagsins í meistaraflokkum en félagið er í dag með lið í 2. deild karla í meistaraflokki og 1. deild kvenna. Alls eru um 500 iðkendur í knattspyrnudeild Aftureldingar.

Jafnframt sagði Guðni að það kæmi sér á óvart að jafn stórt íþróttafélag og Afturelding væri ekki með félagsaðstöðu sem nýttist félaginu öllu. Benti hann á að slíkt skipti miklu máli fyrir öll íþróttafélög og hvatti knattspyrnudeildina til að vinna að þeim málefnum í aðdraganda sveitastjórnarkosninga.

Guðni fékk kynningu á áformum Aftureldingar og Mosfellsbæjar varðandi byggingu á knatthúsi í hálfri stærð. Guðni segir að sú framkvæmd sé skynsamleg og í takt við þá stefnu sem önnur íþróttafélög hafa tekið. Þó væri mikilvægt fyrir knattspyrnuna á höfuðborgarsvæðinu að byggja 1-2 stór knattspyrnuhús til að anna eftirspurn.

Fundurinn var afar vel heppnaður og voru Guðna færðar gjafir í lok fundarins sem þakklætisvott fyrir heimsóknina. Fundur sem þessi eflir tengsl Aftureldingar við KSÍ og hjálpar það félaginu að geta átt jákvæðar umræður um tækifæri og ógnir deildarinnar við sitt sérsamband.