Jon Tena á ný til Aftureldingar

Ungmennafélagið Afturelding Knattspyrna

Afturelding hefur náð samkomulagi við spænska markvörðinn Jon Tena Martinez og mun hann leika með félaginu á komandi tímabili. Jon Tena lék með Aftureldingu síðari hluta tímabilsins á síðasta ári í Inkasso-deildinni og stóð sig afar vel. Var hann einn af lykilmönnum liðsins á lokasprettinum en Afturelding hafnaði í 8. sæti á síðustu leiktíð.

Jon Tena er 27 ára gamall og er uppalinn hjá Real Sociedad. Hann lék 10 leiki með Aftureldingu á síðustu leiktíð og hélt hreinu í fjórum leikjum.

„Jon er mjög góður markvörður og hann var öryggið uppmálað í þeim leikjum sem hann spilaði á síðasta tímabili.  Jon er flottur karakter sem kom vel inn í hópinn á síðasta tímabili og það verður gaman að sjá hann aftur í Mosfellsbæ,“ segir Magnús Már Einarsson, þjálfari meistaraflokks karla hjá Aftureldingu.

Framunan eru leikir í fotbolta.net mótinu og hefst Lengjubikarinn í febrúar. Jon kemur til landsins þann 1. febrúar næstkomandi og mun leika með liðinu á undirbúningstímabilinu.

Velkominn aftur, Jon!