Kristrún valin best hjá meistaraflokki kvenna

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Kristrún Halla er enn aðeins nítján ára gömul en hefur leikið með meistaraflokki í allnokkur ár. Hún lék fyrstu leiki sína í efstu deild árið 2008 en síðan 2010 hefur hún verið í sífellt stærra hlutverki hjá liðinu. Kristrún lék alla leikina í Pepsideildinni í sumar og steig varla feilspor. Samtals á hún að baki 67 leiki með Aftureldingu og hefur í þeim skorað þrjú mörk. Kristrún Halla verður tvítug í næsta mánuði.

Efnilegasti leikmaðurinn var valin Eydís Embla Lúðvíksdóttir. Eydís varð 17 ára í sumar og hefur undanfarin ár verið einn burðarása liðsins í sínum aldursflokki. Eydís var í sigursælu liði Aftureldingar sem m.a. varð Íslandsmeistari í 5.flokki árið 2008 og hefur nokkrum sinnum verið boðuð á landsliðsæfingar, síðast með U19 seinnipart sumars.

Eydís Embla er fjölhæfur íþróttamaður því hún hefur einnig komið við sögu með yngri landsliðum Íslands í handbolta auk þess sem hún náði góðum árangri í fimleikum á sínum tíma. Þá hefur hún undanfarið ár verið aðstoðarþjálfari hjá félaginu og þjálfað 4. og 5.flokk kvenna.

Markahæsti leikmaður sumarsins var Telma Hjaltalín Þrastardóttir sem skoraði 8 mörk í 16 leikjum í Pepsideildinni. Telma gekk til liðs við norska úrvalsdeildarliðið Stabæk í haust en hún hefur alls skorað 16 mörk í 30 leikjum með meistaraflokki Aftureldingar frá árinu 2010.

Besti félaginn var svo valin Kristín Tryggvadóttir sem er orðin einn reynslumesti leikmaður félagsins með 72 leiki og 6 mörk fyrir meistaraflokk síðustu sjö ár þrátt fyrir að vera aðeins tuttugu og eins. Kristín hefur tekið þátt í ævintýri meistaraflokks frá því í fyrstu deildinni á sínum tíma undir stjórn Gareths Sullivan og hefur leikið öll sex tímabilin sem Afturelding hefur leikið í efstu deild.