2. flokkur karla deildarmeistarar

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það var ekki mikið í húfi fyrir heimamenn í þessum leik en lið Aftureldingar myndi með sigri tryggja sér efsta sætið í C deild. Það var samt ljóst strax frá fyrstu mínútu að Sindramenn ætluðu ekki að gefa neitt á sínum heimavelli.

Aftureldingar liðið sótti meira í fyrri hálfleik og áttu nokkur góð tækifæri til að skora en inn vildi boltinn ekki. Staðan var 0-0 í hálfleik og mesta stressið farið úr okkar mönnum. Liðið byrjaði síðari hálfleikinn frábærlega og átti nokkrar flottar sóknir og á endanum gaf loks Sindra vörnin eftir og Valgeir Steinn Runólfsson skoraði gott mark eftir undirbúning Arnórs Gauta Ragnarssonar og Ægis Snorrasonar.

Eftir markið duttum við aðeins aftar á völlinn og Sindramenn settu pressu á liðið og áttu þeir 2-3 möguleika á að jafna leikinn en það voru baráttuglaðir Mosfellingar sem gerðu útum leikinn á lokamínútunum eftir vel útfærða skyndisókn en það var við hæfi að Anton Ari Einarsson markvörður mfl karla skoraði stórglæsilegt mark. Þetta var tímamóta leikur fyrir Anton eins og fleiri leikmenn liðsins því þetta var síðasti leikur þeirra með 2.flokki félagsins. Anton Ari fékk að leika síðustu mínútur leiksins frammi og fullkomnaði flottan leik með marki sínu.

Þjálfarar liðsins eru Úlfur Arnar Jökulsson, Bjarki Már Sverrisson og Einar Jóhannes Finnbogason.