Kristún og Axel íþróttafólk knattspyrnudeildar

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Kristrún Halla lék alla leiki meistaraflokks kvenna nema einn í Pepsideildinni í sumar og stóð sig afar vel. Hún lék fyrst og fremst sem hægri bakvörður eða miðvörður en í einstaka leik færði hún sig framar á völlinn og leysti það verkefni eins og önnur sem henni voru falin með sóma.

Kristrún var valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna á uppskeruhátíð flokksins fyrr í haust og er vel að titlinum knattspyrnukona Aftureldingar komin. Hún hefur leikið alls 63 leiki fyrir meistaraflokk og skorað í þeim þrjú mörk.

Axel Óskar Andrésson er aðeins fimmtán ára gamall og líklega með yngstu mönnum til að hljóta titilinn knattspyrnumaður Aftureldingar. Axel var lykilmaður í sigursælu liði 3.flokks í sumar og átti stóran þátt í að liðið komst í úrslitaleik Íslandsmótins.

Axel sem er geysiöflugur miðvörður tók þátt í fjórum leikjum með U17 ára landsliði Íslands í sumar og hann fór tvívegis til Englands til reynslu hjá knattspyrnuliðunum Norwich City og Reading sem bæði hafa átt lið í ensku úrvalsdeildinni undanfarin ár.

Knattspyrnudeild óskar Kristrúnu og Axel innilega til hamingju með titilinn og öðrum iðkendum sínum einnig til hamingju með sínar viðurkenningar og þakkar fyrir sérlega skemmtilegt starfsár.

Á meðfylgjandi mynd er Axel með verðlaunagripi sína en Kristrún var stödd erlendis.