Jóhann og Telma íþróttamenn ársins!

Ungmennafélagið Afturelding Afturelding

Uppskeruhátíð Aftureldingar fór fram síðasta laugardag að viðstöddu fjölmenni í íþróttamiðstöðinni að Varmá. Fyrir hádegi var íþróttahátíð fyrir þau yngstu og var vel mætt á skemmtilega dagskrá deilda og eins var íþróttaskólinn á sínum stað og í jólaskapi þennan dag.  Eftir hádegi byrjaði dagskrá með söng og var það hinn kraftmikli Eyþór Ingi sem fór á kostum og lét 450 gesti sem mættir voru syngja með sér.  
Veittar voru viðurkenningar til 11 – 16 ára iðkenda fyrir bestu ástundun og mestu framfarir á liðnu ári.  Þriðji flokkur karla í knattspyrnu fékk UMFUS bikarinn. Hvataverðlaun fengu þau Guðbjörg Fanndal og Sigurður Rúnar frá knattspyrnudeild.  Vinnuþjarkur Aftureldingar var valin Svava Ýr Baldvinsdóttir. Starfsbikar UMFÍ fékk að þessu sinni blakdeildin. Hópbikar UMSK hlaut 3. flokkur karla í knattspyrnu en hann lenti í 2. sæti á Íslandsmótinu í knattspyrnu.   Því næst voru afhentar viðurkenningar fyrir íþróttakarl og íþróttakonu sem deildir Aftureldingar höfðu tilnefnt til kjörs á íþróttakonu og karli Aftureldingar. Úr þeim frækna hópi valdi svo aðalstjórn Aftureldingar þau Jóhann Jóhannsson handboltakappa Íþróttamann Aftureldingar og Telmu Rut Frímannsdóttur karatekonu Íþróttamann og Íþróttakonu ársins 2013.
Íþróttakarl og kona deilda sem tilnefnd voru af stjórnum deilda voru:
Blakdeild – Reynir Árnason og Auður Anna Jónsdóttir
Frjálsíþróttadeild – Óskar Markús Ólafsson og Helga Lára Gísladóttir
Sunddeild – Davíð Fannar Ragnarsson og Bjarkey Jónasdóttir
Taekwondodeild – Ágúst Örn Guðmundsson og María Bragadóttir
Karatedeild – Telma Rut Frímannsdóttir
Handknattleiksdeild – Jóhann Jóhannsson og Hekla Daðadóttir
Badmintondeild – Margrét Dís Stefánsdóttir og Guðmundur Ágúst Thoroddsen
Knattspyrnudeild – Axel Óskar Andrésson og Kristrún Halla Gylfadóttir
Fimleikadeild og körfuknattleiksdeild tilnefndu ekki að þessu sinni.