Kynningafundur um knatthús að Varmá

Knattspyrnudeild Afturelding, Knattspyrna

Mosfellsbær hefur samþykkt að ráðast í að reisa knatthús að Varmá. Knatthúsið verður staðsett þar sem eldri gervigravöllur er nú.  Húsið mun verða um 3.850 fm að stærð og ljóst að þetta nýja hús verður mikil lyftistöng fyrir knattspyrnuiðkun í sveitarfélaginu sem og fleiri íþróttir.

Forsögu þessarar ákvörðunar má rekja til þess að á undanförnum þremur árum hefur iðkendum í knattpspyrnudeild fjölgað um 28% sem er langtum meira en spár gerðu ráð fyrir.

Í ljósi þessarar fjölgunar fór stjórn knattspyrnudeildar í samvinnu við aðalstjórn félagsins í þá vinnu að skoða aðstöðuþörf deildarinnar til næstu ára. Afrakstur þeirrar vinnu birtist í framtíðarsýn deildarinnar sem finna má á heimasíðu félagsins, afturelding.is.

Helstu niðurstöður þessarar framtíðarsýnar eru settar fram í þremur áföngum en sýnin snýr að því að stækka æfingasvæði deildarinnar.

Áfangi 1: Yfirbyggður ½ völlur, endurnýjun gervigrass á núverandi velli, búningsherbergi löguð tímabundið.
Áfangi 2: Stúka, búningsklefar, geymslur og félagsaðstaða við núverandi gervigrasvöll
Áfangi 3: Gervigras, hitalagnir og flóðlýsing sett á Varmárvöll

Nú hefur verið hafist handa við áfanga 1 þar sem búið er að skipta um gervigras á núverandi velli, hönnun er einnig hafin á yfirbyggða húsinu og verður farið í útboð á þeirri framkvæmd fljótlega. *Þess má geta að í húsinu verður einnig hlaupabraut meðfram einni langhlið hússins og gert ráð fyrir göngubraut í kringum allan völlinn þannig að hægt er að nýta húsið í fleira en knattspynuiðkun.

Afturelding og Mosfellsbær bjóða áhugasömum að koma á kynningarfund miðvikudaginn 6.desember næstkomandi, þar sem framkvæmdin verður kynnt og spurningum svarað. Fundurinn verður haldinn í Lágafellsskóla og hefst kl 18.00.

Sjá skýrslu um framtíðarsýn knattspyrnudeildar UMF Aftureldingar.