Mikilvægt stig á Akureyri

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það var sól og blíða og 19 stiga hiti á óopinberum hitamælum þegar upphitun hófst en um þann mund sem flautað var til leiks gerði hressilegan blástur sem setti nokkurn svip á leikinn. Fyrstu mínúturnar voru bæði lið að þreifa fyrir sér en heimamenn gerðust aðgangsharðari eftir því sem leið á. Uppúr miðjum hálfleiknum voru sóknarlotur þeirra orðnar býsna þungar og boltinn small í tvígang í stöng en vörn Aftureldingar hélt þar til rúmlega fjörutíu mínútur voru komnar á klukkuna. Eftir hornspyrnu kom þá fyrirliði Þórs/KA á siglingu á móti boltanum og skoraði og héldu þá kannski áhorfendur að ísinn væri brotinn. Staðan 1-0 fyrir Þór/KA í hálfleik.

John þjálfari stappaði stálinu í sínar stúlkur í leikhléi og Aftureldingarliðið sem kom til leiks eftir hlé var mun grimmara og ákveðnara og leikurinn jafnaðist. Eftir nokkrar mínútur átti Telma góða rispu upp kantinn og á leið sinni inní teig lék hún boltanum framhjá varnarmanni Þórs/KA sem fékk boltann í hendina og víti dæmt. Telma fór sjálf á punktinn og skoraði örugglega og staðan jöfn 1-1.

Í síðari hálfleik héldu heimamenn áfram boltanum heldur meira en tókst ekki að finna margar glufur á vörn Mosfellinga. Herslumunurinn frægi lét ekki sjá sig og lítið gekk hjá framherjum Þórs/KA að koma sér í góð færi. Afturelding varðist vel, hélt boltanum á köflum vel innan liðsins og stelpurnar okkar voru ekki hræddar við að spila sig útúr pressu þegar þess þurfti.

Seint í hálfleiknum munaði svo minnstu fyrir okkur þegar Eydís Embla Lúðvíksdóttir átti þrumuskot að marki Þórs/KA en markmaður heimamanna tók á öllu sínu og varði meistaralega. Fleira gerðist ekki markvert þrátt fyrir pressu gestgjafanna síðustu mínúturnar og úrslitin 1-1 jafntefli.

Afturelding heldur áfram að ná í flott úrslit gegn sterkum liðum en stelpurnar voru vel að stiginu komnar á laugardag. Þór/KA er með öflugt lið og gerðu vissulega harða hríð að marki okkar á köflum en allt Aftureldingarliðið varðist vel og vinnslan og baráttan í liðinu var til algerrar fyrirmyndar.

Telma fær stóran plús fyrir sína frammistöðu og jöfnunarmarkið, Megan var frábær að vanda í markinu og Eydís og Sandra gáfu ekkert eftir á miðsvæðinu. Helga Dagný og Eva Rún áttu báðar mjög góðan dag, Danielle var dugleg og vann vel til baka og Aldís kom öflug inn í síðari hálfleik. Varnarlínan var svo frábær allan leikinn, Kristrún traust að vanda og Ingunn átti stórleik en menn leiksins eru valdir miðverðir Aftureldingar, Jenna og Hrefna Guðrún sem standast samanburð við hvaða miðvarðarpar sem er í Pepsideildinni.

Afturelding er með 14 stig, jafnmörg og FH en lakara markahlutfall þegar tveir leikir eru eftir og er stefnan sett á að komast uppfyrir Hafnfirðinga áður en mótinu lýkur. HK/Víkingur hefur verið sækja stig undanfarið og eru komnar með 10 stig í sætinu fyrir neðan og það stefnir því allt í mikla spennu í lokaumferðunum. Afturelding fær Íslandsmeistara Stjörnunnar í heimsókn á miðvikudaginn kemur en lokaleikurinn er á útivelli gegn einmitt HK/Víking á mánudag eftir viku.