Öruggur sigur í fyrsta leik

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Og það eru engar ýkjur að segja það því á fyrstu þremur mínútunum voru okkar menn búnir að skapa hættu í tvígang upp við mark gestanna áður en Alexander Aron Davorsson braut ísinn eftir aðeins fjórar mínútur þegar hann lyfti boltanun laglega yfir markmann KF og staðan orðin 1-0.

Eftir aðeins sjö mínútna leik var staðan orðin 2-0 þegar Alli var aftur á ferðinni með gott skallamark eftir hornspyrnu og hann bætti svo við þriðja marki sínu á tuttugustu og annarri mínútu þegar hann hirti frákastið eftir þunga sókn og smellti knettinum í netið, 3-0 og gestirnir vissu ekki sitt rjúkandi ráð.

Færin voru fleiri, Axel Óskar Andrésson átti bylmingsskot í slá eftir rúman háltíma og flottan skalla stuttu síðar en í millitíðinni varð Alli að fara af velli vegna meiðsla og er vonandi að það sé ekkert alvarlegt að hrjá hann.

Í upphafi síðari hálfleiks var sókn Aftureldingar á köflum afar þung og sérstaklega var Elvar Ingi áberandi og átti hvern sprettinn á fætur öðrum upp hægri kantinn. KF komst þó af og til í sókn og eftir fimm mínútna leik minnkuðu þeir muninn með marki eftir hornspyrnu.

Það var meira jafnræði með liðunum eftir hlé en Afturelding hafði þó bæði tögl og haldir þrátt fyrir að KF næði ágætis köflum í sínum leik af og til. Undir lok leiks gulltryggði svo Birgir Ólafur Helgason sigur Aftureldingar þegar hann komst framhjá markmanni KF eftir langa sendingu fram og staðan og lokaúrslit leiksins 4-1 fyrir okkar mönnum.

Aftureldingarliðið spilaði afar vel, sérstaklega í fyrri hálfleik og þar fór fremstur Alexander Aron sem fær nafnbótina maður leiksins fyrir þrennuna sína og flottan leik. Elvar Ingi var einnig líflegur og Axel Óskar vakti athygli en sá efnilegi piltur var að leika sinn fyrsta deildarleik fyrir félagið aðeins 16 ára. Annars áttu allir ágætan leik og tímabilið byrjar óneitanlega vel.