Pepsideild kvenna hefst á þriðjudagskvöld.

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Þá er loks komið að því – Úrvalsdeild kvenna er að fara af stað og Afturelding sem tekur nú þátt í sjöunda árið í röð í efstu deild mætir FH úr Hafnarfirði í fyrsta leik. Vegna vallaraðstæðna fer leikurinn fram á gerfigrasvellinum að Varmá.

Aftureldingarliðið mætir nokkuð breytt til leiks. Nokkrir leikmenn hafa ákveðið að róa á önnur mið og nýjir eru komnir í þeirra stað auk þess sem athyglisverðir yngri leikmenn munu stíga fram á sjónarsviðið. Þá er bandaríski varnarmaðurinn Amy Marron mætt og mun hún styrkja lið Aftureldingar. Nokkrar af stelpunum okkar eru að jafna sig eftir meiðsli og óvíst með hverjar verða klárar fyrir fyrsta leik en reikna má með svipuðum hóp og í síðustu leikjum undirbúningstímabilsins.

FH liðinu er spáð áttunda sæti á Fótbolta.net en þeirra helsti álitsgjafi er Þorlákur Árnason sem þekkir vel til í kvennaboltanum. Láki spáir reyndar Aftureldingu níunda sæti og falli þannig að hann mun allavega hafa rangt fyrir sér þar. FH liðið hefur misst góða leikmenn og eru dálítið óskrifað blað, kannski ekki ósvipað og Afturelding og því afar fróðlegt að sjá hvernig liðin mæta til leiks á þriðjudag.

Afturelding og FH hafa mæst átta sinnum í deildakeppni síðan árið 2000. Hvort liðið hefur unnið þrjá leiki og tvisvar hefur orðið jafntefli en í fyrra vann heimaliðið í bæði skipti og markatalan var samtals 6-6 þannig að ekki þarf að koma á óvart ef eitthvað verður skorað á Varmárvelli.

Knattspyrnudeild óskar stelpunum okkar góðs gengis í sumar og hvetur Mosfellinga til að kíkja á völlinn á þriðjudagskvöld – Áfram Afturelding !