Selfoss sótti stigin þrjú

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Bæði lið þurftu nauðsynlega á stigum að halda og mátti sjá það á fyrstu mínútunum að mikið var undir. Leikurinn fór rólega af stað en bæði lið voru föst fyrir og ekkert gefið eftir. Á tuttugustu mínútu breyttist hinsvegar staða mála þegar varnarmaður Selfoss átti háa sendingu fram miðjuna þar sem Dagný Brynjarsdóttir reis hæst allra og fleytti boltanum yfir varnarmenn Aftureldingar og á Guðmundu Brynju Óladóttur sem stakk sér innfyrir og kláraði færið óaðfinnanlega framhjá Mist í markinu. Staðan 1-0 fyrir Selfoss.

Nokkrum mínútum síðar var svo Dagný sjálf á ferðinni þegar hún batt endahnútinn á sókn sem hún hóf sjálf og lagði boltann í bláhornið fjær á yfirvegaðan hátt utan úr teig og forysta Selfoss orðin tvö mörk. Afturelding náði ekki að minnka muninn fyrir hlé og staðan því 2-0 í hálfleik.

Eftir hlé var jafnræði milli liðanna og mikil barátta um alla bolta. Selfoss átti þó fleiri hættuleg færi og Guðmunda Brynja skoraði annað mark sitt og þriðja mark Selfoss um miðjan hálfleikinn og úrslitin þar með nokkuð ráðin þrátt fyrir að Afturelding gæfist ekki upp og stelpurnar okkar héldu áfram allan leikinn eins og þær eru þekktar fyrir. Kristrún Halla varð að yfirgefa völlinn alblóðug eftir samstuð við liðsfélaga í vítateig gestanna og þurfti að sauma sjö spor í augabrún eftir leik. Kristrún missir því væntanlega af næsta leik.

Aftureldingarliðið lék ágætlega á köflum og sigur Selfoss var of stór þó hann hafi e.t.v. verið sanngjarn. Okkar stelpur unnu vel allan leikinn en þurfa aðeins að spila sig betur saman. Helen Linskey frá Englandi var að spila sinn fyrsta leik og verður spennandi að fylgjast með henni en hjá gestunum voru það landsliðskonurnar Dagný og Guðmunda sem báru af í annars jöfnu og flottu liði sunnlendinga.

Afturelding er því að máta neðsta sætið tímabundið eftir rólega byrjun í deildinni en það mun breytast fyrr en varir. Næsti leikur er á Akureyri á mánudaginn kemur gegn Þór/KA

Lið Aftureldingar:
Mist
Steinunn (Berglind 62) – Katla – Hrefna – Inga (Brynja 68)
Amy – Lilja – Kristrún (Stefanía 76)
Aldís – Helen – Sigga