Stjarnan of stór biti fyrir stelpurnar

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Það var strax ljóst að Stjarnan mætti til leiks af fullum krafti í blíðunni á Varmárvelli á mánudagskvöld þegar fyrsti leikurinn í 8.umferð Pepsideildarinnar fór fram. Liðið hóf leik með látum og landsliðsmiðherjinn Harpa Þorsteinsdóttir var búin að setja fyrsta markið eftir aðeins fimm mínútur. Rúna Sif Stefánsdóttir bætti öðru marki við eftir átján mínútna leik og ljóst að róðurinn yrði erfiður.

Harpa bætti svo við þriðja marki Stjörnunnar eftir 37.mínútur og þegar Megan Kelly setti fjórða markið tveimur mínútum síðar fór að fara um áhorfendur á Varmárvelli. En þannig stóð í leikhléi og ljóst að Teddi og stelpurnar yrðu heldur betur að ræða málin yfir tebollanum í hálfleik.

Síðari hálfleikur var mun betri af okkar hálfu. Leikskipulaginu var breytt og liðið náði betur saman. Stjarnan náði ekki að opna varnarmúrinn svo heitið gat og þeim fáu glufum sem mynduðust var snarlega lokað og fór svo að ekki meistararnir úr Garðarbænum skoruðu ekki mark í seinni hálfleik og úrslitin því 0-4 þeim í hag.

Eins og við var að búast var þetta erfiður leikur fyrir stelpurnar okkar sem náðu sér ekki á strik í fyrri hálfleik og Stjarnan gekk á lagið. En síðari hálfleikurinn var allt annar og betri og þá sýndu Aftureldingarstúlkur mikinn samhug og baráttu og komust aftur inní leikinn.

Lið Aftureldingar átti sem fyrr segir erfitt uppdráttar fyrir hlé en síðan kom rétta andlit þeirra í ljós. Mist hafði nóg að gera og greip nokkrum sinnum vel inní og ekki við hana að sakast með mörkin fjögur þó hún hefði líklega viljað gera betur með það síðasta sem Megan Kelly skoraði af löngu færi. Amy óx ásmegin þegar leið á leikinn eftir brösuglega byrjun og Inga var nokkuð áberandi í vinstri bakverði. Þá átti Stefanía nokkra spretti í sókninni og ljóst að hraði hennar á eftir að nýtast okkur vel þegar hún verður komin með nokkra leiki í viðbót í reynslubankann.  

En maður leiksins verður ekki valinn að þessu sinn en hrós dagsins fær liðið allt fyrir að ná að draga sig uppúr vonlausri stöðu í hálfleik og klára leikinn með sóma. Mótlætið var farið að fara í skapið á stelpunum en þær misstu þó ekki móðinn sem kann að reynast afar mikilvægt í lok móts þegar markahlutfall getur ráðið úrslitum.

Lið Aftureldingar:
Mist
Eva – Hrefna – Amy – Steinunn (Guðrún Ýr 65) – Inga
Lilja – Sandra (Brynja 46)
Kristrún – Sigga
Stefanía (Dísa 88)