Stórsigur á Varmárvelli

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Okkar menn léku vel í fyrri hálfleik og gerðu þá nokkrar atlögur að marki gestanna. Kristófer, Ferran og Magnús Már voru allir nálægt því að brjóta ísinn en ekkert gekk fyrr en í blálok hálfleiksins þegar Maggi rak endahnútinn á flotta sókn með laglegu marki og Afturelding fór inní leikhlé með 1-0 forystu.

Í síðari hálfleik byrjuðu gestirnir betur á meðan okkar menn virtust enn með hugann við tesopann. Endaði það með fínu marki með skoti rétt utan teigs eftir að Tindastóll hafði sínt klærnar nokkrum sinnum í upphafi seinni hálfleiks. Staðan 1-1.

Úlli þjálfari breytti þá aðeins til og setti Ágúst Leó inná og uppá topp og Ágúst var ekki lengi að setja sitt mark á leikinn þegar markmaður Tindastóls gerði sig sekann um skelfileg mistök – Ágúst rændi af honum boltanum og skoraði í autt markið og staðan orðin 2-1.

Mark þetta virtist slá Tindastólsmenn útaf laginu og Afturelding gekk á lagið og náði undirtökunum að nýju. Maggi bætti við þriðja marki Aftureldingar stuttu síðar og á lokamínútunum skoraði Halldór Jón fjórða markið áður en Ágúst Leó gulltryggði 5-1 sigur með sínu öðru marki.

Sigurinn öruggur og sanngjarn en þó mega Tindastólsmenn eiga það að þeir í stöðunni 1-1 litu ágætlega út og áhorfendum á Varmárvelli stóð ekki á sama. Þegar upp var staðið vann þó Afturelding verðskuldaðan sigur og hefðu okkar menn hæglega getað verið búnir að gera út um leikinn, jafnvel strax í fyrri hálfleik ef markaskórnir hefðu verið betur reimaðir.

Maður dagsins hjá okkar mönnum var Ágúst Leó Björnsson sem kom inn um miðjan síðari hálfleik með miklum fítonskrafti, skoraði tvö mörk og lagði upp eitt og þá var Halldór Jón flottur, sérstaklega í fyrri hálfleik. Magnús Már sýndi gamalkunna takta með tveimur fallegum mörkum og að lokum fær nýstúdentinn Eiður Ívarsson sérstaka heiðurstilnefningu og hamingjuóskir með áfangann.

Afturelding situr nú í öðru sæti deildarinnar með níu stig, einu stigi á eftir Magna og mætir Njarðvíkingum í næsta leik á föstudaginn kemur í Njarðvík.

Lið Aftureldingar: Eiður – Halldór Jón, Einar, Dagur, Breki – Hafliði, Wentzel (Steinar Æ), Arnar – Maggi, Fernando (Aron Ingi), Kristó (Ágúst Leó).