Þrjú mikilvæg stig í höfn eftir sigur á FH

Knattspyrnudeild Knattspyrna

Bæði lið komu ákveðin til leiks enda mikið í húfi. Afturelding mátti ekki tapa stigum gegn FH og dagskipunin einföld, spila þétta og örugga vörn og sækja hratt á heimaliðið.

Fyrstu mínúturnar einkenndust af varfærni og ljóst að hvorugt liðið vildi taka áhættu. Smám saman fóru þó hlutirnir að gerast og Afturelding náði yfirhöndinni í leiknum. Stefanía átti hættulega fyrirgjöf sem lenti ofan á markslá FH eftir um 25 mínútna leik og nokkrum mínútum síðar átti Sigga þrumuskot utanúr teig sem markmaður FH varði í horn.

Stuttu síðar fann Stefanía Courtney í teignum en markmaður FH var fyrri til í boltann sem barst svo út á Eddu Maríu sem reyndi langskot en boltinn hafnaði í slánni. Enn var hætta uppvið mark heimaliðsins, eftir horn lagði Amy boltann út á Lilju sem skaut rétt utan teigs í slána sem nötraði enn þegar Stefanía kom boltanum fyrir á Courtney en Íris í marki FH varði frábærlega og staðan markalaus í leikhléi.

Afturelding var mun betra liðið í fyrri hálfleik og með ólíkindum að stelpurnar næðu ekki að skora en færi FH voru fá, eitt langskot sem Mist sló yfir og fátt annað sem truflaði vörn Aftureldingar.

Síðari hálfleikur byrjaði einnig vel og voru fyrstu 15 mínúturnar eign okkar og það hlaut að enda með marki. Sigga braut á bak aftur sókn FH, gaf á Eddu Maríu sem sendi langan bolta fram í átt að Courtney. Varnarmaður FH virtist misreikna sig og Courtney slapp uppað endamörkum og gaf fyrir þar sem Stefanía kom á ferðinni og kláraði færið örugglega og staðan orðin 1-0 fyrir Aftureldingu.

Stuttu síðar komst Sigga í gott færi eftir stungu frá Stefaníu en markmaður FH komst í boltann á undan. FH komst aðeins inní leikinn um miðjan hálfleikinn og áttu tvö eða þrjú skot en Mist átti ekki í teljandi vandræðum með tilraunir FH.

Áfram var Afturelding líklegra til að skora. Courtney fékk gott færi eftir enn eina fyrirgjöf Stefaníu en setti boltann framhjá og hefði hún litið upp þá var Sigga dauðafrí útí teig og prýðis tækifæri rann okkur þar úr greipum til að klára leikinn. FH átti þó enn ekkert opið færi, sköpuðu smá hættu við fjærstöng eftir fyrirgjöf en hinu megin prjónuðu Courtney og Stefanía sig í gegn og Courtney skaut í slá en var flögguð rangstæð.

Hættulegast færi FH í leiknum kom svo á lokamínútunni þegar þær skalla yfir úr markteig eftir aukaspyrnu en síðasta færi leiksins kom þegar Courtney braust enn upp að endamörkum og átti fyrirgjöf en Sigga skaut beint á markmann í uppbótartíma og dómarinn flautaði svo leikinn af við mikinn fögnuð Aftureldingar.

Lið Aftureldingar átti hreint prýðisleik og var sigurinn sanngjarn þrátt fyrir að aðeins eitt mark hafi skilið liðin af. Marktækifæri okkar voru mun fleiri og hættulegari og stigin þrjú klárlega verðskulduð.

Mist var öryggið uppmálað í markinu að vanda og greip vel inní þegar á þurfti að halda. Amy og Hrefna skelltu í lás í miðri vörninni og Steinunn og Inga Dís áttu báðar mjög góðan leik. Lilja, Heiðrún og Edda María skiluðu glæsilegu dagsverki á miðjunni. Sigga átti frábæran leik og lék við hvern sinn fingur sem og Courtney sem var flugbeitt í sókninni allan leikinn. Kristrún, Dagrún og Valdís komu svo inn í síðari hálfleiknum og leystu af félaga sína með sóma.

Maður leiksins er þó valin Stefanía Valdimarsdóttir sem átti skínandi góðan leik. Hún átti hvern sprettinn á fætur öðrum sem skapaði usla í vörn FH og hefði auk marksins mikilvæga, hæglega getað átt þrjár eða fjórar stoðsendingar ef lukkudísirnar hefðu verið okkur aðeins hliðhollari.

Lið Aftureldingar:
Mist
Steinunn (Dagrún 60) – Amy – Hrefna – Inga
Lilja – Heiðrún – Edda María (Kristrún 73)
Stefanía (Valdís 85) – Sigga – Courtney