Trausti og Ragnar Már í Aftureldingu

Ungmennafélagið Afturelding Knattspyrna

Afturelding er að styrkja sig fyrir átökin í Inkasso-deildinni næsta sumar og hefur bætt við sig tveimur leikmönnum. Um er að ræða markvörðinn Trausta Sigurbjörnsson og kantmanninn Ragnar Má Lárusson.

Báðir leikmennirnir eru ættaðir af Skaganum og uppaldir hjá ÍA. Trausti var lengi í röðum Þróttara í Reykjavík en kemur í Mosfellsbæinn úr Breiðholtinu frá Leikni þar sem hann lék tvo leiki í Inkasso-deildinni í sumar. Trausti hefur einnig leikið með Haukum og ÍR á ferli sínum.

Ragnar Már fór ungur til enska úrvalsdeildarfélagsins Brighton en lék með Kára í 2. deildinni að láni frá ÍA síðastliðið sumar. Ragnar skoraði þrjú mörk í 2. deildinni.

Þessir leikmenn koma til með að styrkja Aftureldingu sem vann 2. deildina og mun því leika í Inkasso-deildinni næsta sumar.