Sunddeild Aftureldingar á ferð og flugi

Sunddeild Aftureldingar Sund

Afrekshópur Sunddeildar Aftureldingar fór í keppnisferð til Danmerkur helgina 15.-18. september sl.   Það voru 10 sundmenn sem tóku þátt í sundmóti í Ringsted í Danmörku eða Ringsted Cup.
Lagt var af stað eldsnemma á föstudagsmorgni, um hádegisbil var lent á Kastrupflugvelli í Kaupmannahöfn.   Á þremur bílum var haldið til Ringsted þar sem helginni var eytt. Á föstudagskvöldinu tók hópurinn æfingu í keppnislauginni þar sem m.a. voru æfðir snúningar og stungupallar prófaðir. Mótið stóð yfir bæði laugardag og sunnudag.  Þátttakendur komu víðsvegar að af öllu Sjálandi, þetta var stórt mót en sundmenn UMFA stóðu sig vel. Margir voru að bæta tímana sína og Birta Rún Smáradóttir gerði sér lítið fyrir og vann til bronsverðlauna í 100m baksundi í flokki 12-13 ára. Hún synti á tímanum 1:16.88 sem er frábær tími og var aðeins hársbreidd frá lágmarki inn á Íslandsmeistaramótið í 25m laug. Hápunktur mótsins var lokagreinin, 10x50m skriðsund, þar sem allur hópurinn keppti saman í boðsundi. Á mánudagsmorgni var haldið til Kaupmannahafnar, kíkt á Strikið og öll tækin í Tivolíinu prófuð nokkrum sinnum áður en haldið var af stað til Íslands aftur.  Það var glaður en þreyttur hópur sem lenti í Keflavík aðfararnótt þriðjudags 19. sept. eftir virkilega vel heppnaða og skemmtilega ferð sem í alla staði tókst frábærlega. 
Nú taka við strangar æfingar hjá afrekshópnum til að vinna að lágmörkum inn á ÍM25 sem haldið verður um miðjan nóvember.  Nú þegar hafa tveir frá UMFA náð lágmörkum inn á mótið en a.m.k. þrír til viðbótar eiga örfá sekúndubrot í land. Við stefnum því á að fara með flottan hóp á Íslandsmeistaramótið í nóvember.