María Guðrún valin Taekwondokona ársins

Ungmennafélagið Afturelding Taekwondo

María Guðrún Sveinbjörnsdóttir var í gær útnefnd Taekwondokona ársins. Þetta er í annað sinn sem María hlýtur þennan heiður. María er fremsta taekwondokona ársins, og var fulltrúi TKÍ í vali á íþróttamanni ársins árið 2017. Fyrir utan að vera máttarstólpi í landsliðsstarfinu, þar sem hún sannkallaður leiðtogi í landsliði Íslands í poomsae, sér hún um poomsae þjálfun hjá fjölmörgum félögum og hefur þar stóreflt þjálfunina með fagmennsku sinni og einstöku viðmóti.

María Guðrún hefur keppt á mörgum mótum í ár fyrir Íslands hönd, og bar þar hæst keppni á heimsmeistaramótinu í Taiwan í nóvember þar sem hún lenti í 9.-16. sæti í erfiðum flokki. María Guðrún keppti á Opna Enska mótinu sl. vor og vann þar til gullverðlauna bæði í bardaga og í poomsae. Hún vann til brons- og silfurverðlaun á NM í Finnlandi síðasta vetur. María Guðrún er Íslandsmeistari í poomsae auk þess að vera margfaldur bikarmeistari í bæði poomsae og bardaga.

Það eru fáir aðilar á Íslandi í taekwondo sem komast með tærnar þar sem María Guðrún hefur hælana og fyrir utan að vera yfirburða keppnismanneskja þá tekur hún mjög virkan þátt í öllu starfi síns félags og TKÍ, og leggur þannig einstaklega mikið til uppbyggingar á íþróttinni á Íslandi.

Þetta eru aldeilis glæsilegar fréttir fyrir okkur að fara með inn í jólahátíðina.
Innilegar hamingjuóskir María og Taekwondodeild Aftureldingar!