Arnar yfirþjálfari með silfur á stóru móti

TaekwondoTaekwondo

Arn­ar Braga­son keppti í taekwondo á Europe­an Masters Games á dög­un­um og upp­skar silf­ur í A-styrk­leika­flokki, 45 ára og eldri -80kg. Hann var eini taekwondo-kepp­and­inn frá Íslandi að þessu sinni og fór ásamt landsliðsþjálf­ara Íslands, Chago Rodrigu­ez Segura á mótið, sem haldið var í Tor­ino á Ítal­íu.

Mótið er fjölíþrótta­mót fyr­ir 35 ára og eldri og haldið á fjög­urra ára fresti. Þetta eru sem sagt Evr­ópu­leik­ar öld­unga, en samt opið fyr­ir þátt­töku fyr­ir kepp­end­ur frá öll­um þjóðum heims, og voru t.d. Banda­rík­in með eitt stærsta liðið í taekwondo-keppn­inni.

Arn­ar keppti í undanúr­slit­um við sig­ur­veg­ar­ann í þess­um flokki frá síðasta móti, Sak­ir Uyar frá Frakklandi, og náði al­gjör­lega að lesa and­stæðing­inn og stjórna bar­dag­an­um frá upp­hafi til enda og fór hann að lok­um 20:1 Arn­ari í vil. Mjög óvænt­ir yf­ir­burðir.

Í úr­slit­um mætti Arn­ar öðrum Frakka, Tony Comprelle, sem hafði unnið til silf­ur­verðlauna á World Masters Games 2013. Í byrj­un bar­dag­ans, eft­ir um 10 sek­únd­ur, nær Arn­ar höfuðsparki á Frakk­ann sem spark­ar nær sam­tím­is í búk til baka og Arn­ar fell­ur í kjöl­farið og lend­ir á hend­inni.

Þegar þeir standa upp finn­ur Arn­ar strax að hönd­in er brot­in en bar­dag­inn held­ur áfram. Því miður gekk ekki eins vel eft­ir þetta og Arn­ar tap­ar úr­slita­bar­dag­an­um 15:19 þannig að silf­ur var niðurstaðan.

Þess má geta að Arn­ar keppti einnig á Evr­ópu­leik­un­um síðast, sem sagt árið 2015, og endaði þá einnig með silf­ur, en þá í -68kg, 45 ára og eldri, A-styrk­leika­flokki.