Arnar Bragason keppti í taekwondo á European Masters Games á dögunum og uppskar silfur í A-styrkleikaflokki, 45 ára og eldri -80kg. Hann var eini taekwondo-keppandinn frá Íslandi að þessu sinni og fór ásamt landsliðsþjálfara Íslands, Chago Rodriguez Segura á mótið, sem haldið var í Torino á Ítalíu.
Mótið er fjölíþróttamót fyrir 35 ára og eldri og haldið á fjögurra ára fresti. Þetta eru sem sagt Evrópuleikar öldunga, en samt opið fyrir þátttöku fyrir keppendur frá öllum þjóðum heims, og voru t.d. Bandaríkin með eitt stærsta liðið í taekwondo-keppninni.
Arnar keppti í undanúrslitum við sigurvegarann í þessum flokki frá síðasta móti, Sakir Uyar frá Frakklandi, og náði algjörlega að lesa andstæðinginn og stjórna bardaganum frá upphafi til enda og fór hann að lokum 20:1 Arnari í vil. Mjög óvæntir yfirburðir.
Í úrslitum mætti Arnar öðrum Frakka, Tony Comprelle, sem hafði unnið til silfurverðlauna á World Masters Games 2013. Í byrjun bardagans, eftir um 10 sekúndur, nær Arnar höfuðsparki á Frakkann sem sparkar nær samtímis í búk til baka og Arnar fellur í kjölfarið og lendir á hendinni.
Þegar þeir standa upp finnur Arnar strax að höndin er brotin en bardaginn heldur áfram. Því miður gekk ekki eins vel eftir þetta og Arnar tapar úrslitabardaganum 15:19 þannig að silfur var niðurstaðan.
Þess má geta að Arnar keppti einnig á Evrópuleikunum síðast, sem sagt árið 2015, og endaði þá einnig með silfur, en þá í -68kg, 45 ára og eldri, A-styrkleikaflokki.