Grátlegt tap gegn Íslandsmeisturunum

Handknattleiksdeild Aftureldingar Handbolti

Leikmenn Aftureldingar mættu í Digranesið í gær staðráðnir að bæta upp fyrir svekkjandi tap gegn ÍR á mánudaginn sl.
Leikurinn byrjaði ágætlega og Afturelding náði fljótlega 2-3 marka forustu. Vörnin var að standa vel og Davíð að verja mjög vel í markinu. Sóknarleikurinn ágætur og liðið var að skapa sér fín færi. Þessi færi nýttust því miður mjög illa og leikmenn gerðu sig seka um allt of marga tæknifeila, þ.e. sendingafeila, missa boltann og fleira í þeim dúr. Staðan í hálfleik var 10-11 fyrir Aftureldingu.  Eins marks forusta sem hefði hæglega getað verið mun meiri ef liðið næði að fækka tæknifeilum og betri nýtingu í dauðafærunum.
Seinni hálfleikur var ekkert ósvipaður þeim fyrri. Afturelding leiddi leikinn með 1-2 mörkum og útlitið nokkuð gott. Markmenn beggja liða voru að spila mjög vel og voru þeir báðir að verja skot úr opnum færum. Vendipunktur leiksins var þegar um tuttugu mínútur voru til leiksloka. Brotið var á Jóhanni í upplögðu færi, en ekkert dæmt. Davíð lætur út úr sér e-ð sem hann átti ekki að segja og uppskar rautt spjald. Smári kom inn í markið en náði því miður ekki finna taktinn.
Afturelding komst í 16-19 og gat aukið muninn í 4 mörk. Þá kom slæmur kafli og leikmenn HK gengu á lagið. Þeir jöfnuðu og komust yfir. Hilmar jafnar leikinn í 23-23 og æsispennandi lokamínúta í uppsiglingu. Smári ver skot þegar um 12 sekúndur eru eftir af leiknum en HK nær frákastinu og fá víti sem þeir skoruðu úr. Afturelding náði ekki að skapa sér færi á þeim 8-9 sekúndum sem eftir liðu og leikurinn fjaraði út. Niðurstaðan er grátlegt tap og ekkert stig eftir 2 umferðir.
Liðið þarf að læra af þessum leik og mikilvægt er að fækka þessum aragrúa af tæknifeilum sem liðið er að gera. Liðið verður að spila vel allan leikinn og hafa þann sigurvilja sem þarf til að sigra leiki.
Davíð var frábær í markinu, þær mínútur sem hann spilaði og Hilmar spilaði mjög vel. Vörnin með Hrafn í miðjunni var góð og flestir að standa vaktina vel í vörninni. Sóknin var fín á köflum en nokkrir útileikmenn eiga mikið inni.
Áfram Afturelding

Varðandi rauða spjaldið.

Harður dómur og undirrituðum finnst stefnan hjá dómaranefnd HSÍ vera í þá átt að ekkert megi segja og það sé nánast verið að taka alla tilfinningu úr leiknum. Það má ekkert heyrast frá bekknum og minnstu köll og jafnvel stuðningur þaðan er illa séður. En blessað dómarastarfið er erfitt og oft á tíðum vanþakkátt. HSÍ reynir að vernda dómarana eftir fremsta megni en það má ekki taka alla tilfinningu úr leiknum. Bekkurinn á að vera eins og í sunnudagsmessu. Auðvitað þarf að vera virðing fyrir dómurum og það er ekki í lagi að hreyta hverju sem er í þá. En ef þetta var rautt spjald þá má búast við nokkrum rauðum spjöldum í N1 deildinni í vetur ef þetta á að vera línan.
        Handboltaáhugamaður.