Íris Kristín Smith og Þóra María Sigurjónsdóttir hafa framlengt samninga sína við Aftureldingu og munu leika með félaginu næstu tvö árin. Afturelding vann sér sæti í Olísdeild kvenna á næstu leiktíð eftir að hafa unnið Grill66-deildina í vor.
Þóra María hefur þrátt fyrir ungan aldur verið í lykilhlutverki hjá Aftureldingu síðustu tímabil. Hún skoraði 116 mörk í 20 leikjum á síðustu leiktíð í Grill66-deildinni og var markahæsti leikmaður Aftureldingar í deildinni. Þóra er 18 ára gömul og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og er mikil fyrirmynd fyrir yngri iðkendur. Þóra leikur stöðu skyttu eða miðju. Hún er uppalin í Aftureldingu og það er mikið ánægjuefni fyrir félagið að Þóra María spili áfram með Aftureldingu næstu árin.
Íris Kristín hefur leikið með Aftureldingu síðustu tímabil. Hún kom tilbaka með krafti í síðustu leikina í deildinni í vor eftir barnsburðarleyfi. Íris er hornamaður með mikla reynslu og er ekki síst sterkur leiðtogi innan vallar sem utan. Afturelding fagnar því að halda í krafta Írisar næstu tvö tímabil.
Á myndinni eru f.v.: Íris Kristín Smith, Erla Dögg Ragnarsdóttir, formaður mfl. ráðs kvenna, og Þóra María Sigurjónsdóttir.