Styrktarsamningur við Íslandsbanka endurnýjaður

Handknattleiksdeild Aftureldingar Blak, Handbolti

Blak- og handknattleiksdeild Aftureldingar hafa endurnýjað samninga sína við Íslandsbanka til næstu tveggja ára. Íslandsbanki mun þar með halda áfram að styðja við íþróttalífið í Mosfellsbæ. Ólafur Ólafsson, útibússtjóri Íslandsbanka í Höfðabakka, undirritaði nýjan samning ásamt Ásgeiri Sveinssyni, formanni meistaraflokksráðs karla í handbolta og Guðrúnu Kristínu Einarsdóttur, formanni blakdeildar.
 
„Ég er afar glöð með að Íslandsbanki haldi áfram að styðja starfið hjá okkur í Aftureldingu. Þökk sé styrktaraðila líkt og Íslandsbanka þá tekst okkur að halda úti blakliðum í karla- og kvennaflokki í fremstu röð á Íslandi,“ segir Guðrún Kristín, formaður blakdeildar Aftureldingar.

Styrkurinn til handknattleiksdeildar skiptist á milli meistaraflokks karla og yngri flokka félagsins. „Íslandsbanki hefur stutt vel við bakið á okkur á síðustu árum og hjálpað meistaraflokkum félagsins að taka stór skref áfram. Ég er þess fullviss að samstarfið á eftir að reynast gæfuríkt fyrir Íslandsbanka og ekki síst okkur hjá Aftureldingu,“ segir Ásgeir Sveinsson.

Samningurinn er til tveggja ára og rennur út í árslok 2018.