Telma Rut safnar reynslu og æfir af kappi erlendis

Karatedeild Aftureldingar Karate

Telma Rut fór til Lúxemborgar í september og keppti þar fyrir Íslands hönd á Smáþjóðaleikunum í karate. Hún keppti í kumite, sem er bardaga hlutinn í karate og vann hún silfurverðlaun sem var besti árangurinn sem Íslendingar náðu á því móti.
Frá Lúxemborg hélt hún til Marseille og æfði þar hjá félagi sem heitir FKA en þar þjálfar Alex Biamonti sem er margfaldur heims- og Evrópumeistari í kumite. Biamonti hefur haldið æfingabúðir á Íslandi við góðan orðstýr og var þetta gullið tækifæri fyrir Telmu Rut að geta æft hjá honum því þar undirbjó hún sig fyrir heimsmeistaramótið í karate og safnaði í leiðinni góðri reynslu í bankann. Hún sótti einnig fleiri æfingabúðir og æfði með góðu og reynslumiklu karatefólki.
Heimsbikarmótið í karate var haldin í Salzburg í október Þetta var lokamótið í mótaröðinni þar sem allt besta karatefólk heims tók þátt og voru yfir 600 keppendur skráðir til leiks. Telma Rut vann ekki til verðlauna en reynslan var góð.
Heimsmeistaramótið fór fram í nóvember. Telma Rut tapaði fyrsta bardaganum á móti stúlku sem komst í úrslit þannig að Telma Rut fékk uppreisn um réttinn til að keppa um þriðja sæti. Hún beið þar lægri hlut efir harða baráttu 0-2 og lenti í 11. -12. sæti í sínum flokki en henni gekk best af íslensku keppendunum á mótinu.
Telma Rut hefur notað tímann vel sl. mánuði og það styttist í heimkomu hennar. Hún mun keppa á Íslandsmeistaramóti fullorðinna í kumite sem verður 22. nóvember en á síðasta móti varð hún tvöfaldur Íslandsmeistari i kumite.