Tvær medalíur á Norðurlandameistaramótinu

Karatedeild Aftureldingar Karate

Landslið Íslands  tók þátt í Norðurlandameistaramótinu í karate sem haldið var í Laugardalshöll 13. apríl sl. Alls tóku 47 íslenskir keppendur þátt og voru þau Telma Rut Frímannsdóttir og Þórður Jökull Henrysson úr Aftureldingu valin til þátttöku.

Hársbreidd frá því að komast í úrslit

Þórður náði þeim frábæra árangri að komast í undanúrslit í sterkum og fjölmennum flokki í kata male senior, en í undanúrslitum tapaði hann með minnsta mögulega mun, 0,1 stigi á móti Svíanum William Tran. Hann keppti því um bronsið á móti Dananum Mark Løytved með kata Pachu á móti Anan hjá Mark. Þórður vann þá viðureign örugglega með 0,9 stiga mun og vann því brons 🥉

Þórður með brons

Besti árangur í 25 ár

Tuttugu og fimm ár er síðan Íslendingur komst síðast á pall í senior male kata á NM, eða árið 1999. Síðan þá hafa Eystrasaltslöndin bæst við og er keppnin því enn harðari nú. Þetta er í fimmta sinn sem Íslendingur vinnur til verðlauna í kata male senior frá árinu 1985.

Silfur í hópkata karla

Þórður keppti einnig í hópkata karla með félögum sínum í landsliðinu, þeim ungu og efnilegu Prince Caamic og Jakub Kobiela. Aðeins þrjú lið tóku þátt í hópkata karla að þessu sinni og unnu þeir örugglega á móti Eistlandi en töpuðu fyrir Svíþjóð og kom silfrið því í þeirra hlut 🥈🥈🥈

Jakub, Prince og Þórður í hópkata karla

Þórður, Prince og Jakub með silfur

Átta ára pása hjá Telmu Rut

Telma hefur ekki keppt með landsliðinu í átta ár og því á brattann að sækja. Hún keppti í kumite senior female -61 kg. Í fyrstu umferð mætti hún hinni gríðar sterku Koponen og laut í lægra haldi fyrir henni. En þar sem Koponen fór alla leið í úrslit þá fékk Telma tækifæri til að keppa um bronsið en þar tapaði hún 3-0 á móti Fuyu frá Danmörku og lenti því í 5. sæti.

Telma keppti einnig í hópkumite kvenna. Þar mættu þær fyrst Finnska liðinu sem vann örugglega. Þar sem Finnska liðið fór í úrslit þá kepptu þær um bronsið á móti Danmörku og fór svo að Danmörk vann einnig örugglega og 5. sætið því raunin. Frábær innkoma hjá Telmu!

Telma Rut að berjast við Koponen frá Finnlandi

Besti árangur Íslands frá upphafi

Íslendingar hafa aldrei unnið til jafn margra verðlauna á mótinu og nú eða þrettán. Bestum árangri náði Samuel Josh Ramos en hann varð Norðurlandameistari í kumite male senior -67 kg. Alls fengu íslensku keppendurnir 1 gull, 5 silfur og 7 bronsverðlaun.

Ekkert mót án dómara og starfsmanna

Allt mótahald byggist á því að réttindadómarar dæmi og sjái til þess að allt fari skv. reglum, og starfsmenn mótsins setja það upp, keyra tölvukerfi og ganga svo frá öllu að því loknu. Alls voru um 40 dómarar á mótinu og var Anna Olsen aðstoðardómari á mótinu. Anna María Þórðardóttir var í mótanefnd og vann við undirbúning og framkvæmd mótsins. Fleiri sjálfboðaliðar komu einnig frá Aftureldingu í uppsetningu og frágang og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir. Mótsstjóri var María Jensen.

Úrslit mótsins má nálgast hér og nánar má lesa um árangur Íslendinganna í frétt Morgunblaðsins.

Þórður með Antonio Diaz, tvöföldum heimsmeistara í kata karla og Magnúsi Eyjólfssyni landsliðsþjálfara

Hluti af íslenska kata liðinu að lokinni æfingu með Antonio Diaz

 

📸 Thorkell Thorkelsson (einkennismynd)
📸 Kristján Kristjánsson (verðlaunaafhending og hópkata)
📸 Valgeir Þór Hallbergsson (mynd af Telmu Rut)
📸 Anna María Þórðardóttir (hópmynd og mynd af Þórði með Diaz og Magnúsi)