Stelpurnar komnar í 16-liða úrslit í Mjólkurbikarnum

Ungmennafélagið Afturelding Knattspyrna

Meistaraflokkur kvenna tók á móti Grindavík í 32-liða úrslitum bikarsins á Varmárvelli í gær. Búist var við hörkuleik enda bæði lið í Inkasso deildinni. Sú varð raunin en eftir framlengdan leik urðu lokatölur 5-4 Aftureldingu í vil. Staðan 4-4 eftir venjulegan leiktíma.

Eydís Embla Lúðvíksdóttir er komin heim frá Bandaríkjunum þar sem hún stundar nám og skoraði 2 mörk í leiknum. Eydís, sem er leikjahæsti leikmaður liðsins þetta sumarið, kom inn á í hálfleik og var þarna að skora sín fyrstu mörk fyrir meistaraflokk Aftureldingar og mun án efa styrkja liðið fyrir komandi baráttu.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir stal þó senunni en hún skoraði þrennu í leiknum og þar með talið sigurmarkið sem kom úr frábærri aukaspyrnu á síðustu mínútu framlengingar. Í viðtali við fotbolti.net sagðist hún hafa verið viss um að skora úr spyrnunni. „Samira var nýbúin að tala við mig og hún róaði mig niður þannig ég var bara viss um að ég væri að fara að skora“. Sigurmarkið má sjá hér fyrir neðan og viðtal við Hafrúnu er neðst í fréttinni.

Frábær árangur hjá stelpunum sem eru komnar í 16-liða úrslit í Mjólkurbikarnum árið 2019. Dregið verður á morgun, föstudaginn 17.maí, og verða leikirnir spilaðir 31.maí eða 1.júní. Spennandi verður að sjá hvaða lið Afturelding fær en Pepsi-Max deildarliðin koma núna inn í keppnina.

Næsti leikur hjá stelpunum er á sunnudaginn þegar þær heimsækja Grindavík í deildinni. Við hvetjum Mosfellinga til að fjölmenna til Grindavíkur og hvetja stelpurnar.

Áfram Afturelding!