Verkefnin eru mörg í Aftureldingu

Körfuknattleiksdeild Aftureldingar Körfubolti

Nú styttist í að fyrri hluta keppnistímabilsins ljúki hjá körfuboltafólki í Aftureldingu en núna um helgina voru fjölmargir leikir spilaðir af okkar fólki.   5.bekkurinn, sem kallast minnibolti 10 ára, spilaði í glæsilegum Ólafssal þeirra Hafnfirðinga.  Leikið var í 2. umferð Íslandsmótsins og sendum við tvö lið til keppni. Skemmst frá því að segja að af 8 leikjum sem leiknir voru sigruðu krakkarnir 7.   A-liðið sigraði sína 4 leiki og færa sig upp um riðill fyrir 3ju umferð og B-liðið sigraði 3 af 4 leikjum sínum og voru hársbreidd frá því að færa sig einnig upp um riðil.  Sannarlega flottar framfarir hjá okkar iðkendum og nú er um að gera að æfa vel áfram, bæta sig og mæta tilbúin í 3ju umferð Íslandsmótsins á nýja árinu.

8.flokkur karla lék einnig í sínu Íslandsmóti og eru búnir með 3 leiki í 3ju umferðinni. Á fimmtudag léku þeir í Hafnarfirði gegn Haukum þar sem þeir sigruðu með 5 stigum.  Í dag sunnudag léku þeir síðan tvo leiki í Varmá, fyrst gegn mjög flottu liði KR-B en þar sigraði okkar fólk leikinn í framlengingu 52-50. Símon Logi jafnaði leikinn með 3ja stiga körfu og tryggði Aftureldingu framlengingu á síðustu sekúndum venjulegs leiktíma.   Þeir sigruðu svo Stjörnuna-C í seinni leik dagsins nokkuð örugglega og eiga síðasta leik 3ju umferðarinnar í Grafarvogi á morgun og með sigri þar færast þeir upp í sterkari riðil.   Strákar í 7. flokk sem eru einu ári yngri mættu á ritaraborð og gaman var að sjá að iðkendur í 9.-10. bekk voru þeim til halds og traust þar sem allir eru að læra og mikilvægt að finna vinnusemi og vináttu hjá öllu okkar fólki.

10.flokkurinn okkar sem er skipaður leikmönnum í 9.flokki lék svo gegn Laugdælum/Hrunamönnum í gær og laut í lægra haldi.   Erfið byrjun, þar sem andstæðingarnir skoruðu 38 stig í einum leikhluta gegn 14, fór með möguleikana á sigri en mikil barátta og vinnusemi það sem eftir lifði leiks þar sem okkar menn klóruðu aðeins í bakkann.   Sigur gestanna var þó verðskuldaður en næsta verkefni hjá okkar mönnum er á miðvikudag í Varmá þar sem þeir mæta Grindavík í 9. flokki. Strákarnir eru staðráðnir í að æfa vel í vikunni og halda áfram að bæta sig.

1.-4.bekkurinn okkar er síðan að fara á sitt annað mót um næstu helgi en þá verður Jólamót Vals að Hlíðarenda og hátt í 50 krakkar frá okkur hafa skráð sig verður eflaust mikið fjör á mótinu.

Við hvetjum alla Mosfellinga og foreldra til þess að mæta og styðja við bakið á þessum duglegu krökkum.

Áfram Afturelding Körfubolti