Taekwondodeildin á ferð og flugi

Taekwondo Taekwondo

Keppendur frá UMFA lögðu land undir fót nú um helgina og tóku þátt í mjög stóru móti í Manchester á Englandi.  Alls voru keppendur frá yfir 50 félögum um allar Bretlandseyjar, auk okkar á mótinu og voru dagarnir bæði langir og strangir.

Á laugardag var keppt í poomsae og fékk okkar gríðarlega efnilega keppniskona, Ásthildur Emma Ingileifardóttir, gullverðlaun í svartbeltisflokki, auk þess að vera í sigurliði Aftureldingar í ofur-hópa poomsae, þar sem 5 keppendur eru inni á gólfinu í einu.  Auk Ásthildar voru í sigurliðinu María Guðrún, Steinunn Selma og systurnar Vigdís Helga og Iðunn Anna (sem eru að auki dætur Maríu Guðrúnar).

Í poomsae keppninni fengu svo Iðunn Anna, Vigdís Helga, Aþena Rún og Símon silfurverðlaun í einstaklingspoomsae.  Í „venjulegu“ hópa poomsae fengu svo Steinunn Selma og mæðgurnar Vigdís Helga og María Guðrún gullverðlaun, en þar eru þrír keppendur inni á vellinum í einu. 

María Guðrún og Selma, og Ásthildur og Iðunn fengu silfurverðlaun í para poomsae og eins fengu tvíburarnir Símon og Davíð silfur í parapoomsae, 8 ára gamlir á sínu fyrsta móti erlendis.

Laugardagurinn var hreinlega frábær hjá okkar fólki og má með sanni segja að farið hafi um Bretana að sjá þennan skælbrosandi hóp frá heimskautsbaug koma og sanka að sér gullverðlaunum.  Niðurstaðan varð sú að íslenski hópurinn lenti í öðru sæti í liðakeppni dagsins, af rúmlega 50 félögum.

Á sunnudeginum var keppt í bardaga og þar gekk ekki síður vel en daginn áður.  Arnar Bragason, yfirþjálfari deildarinnar, fékk gull í veteran flokki (35 ára og eldri) og silfur í senior flokki (18-35 ára) og heldur þar með uppteknum hætti að sýna sér miklu mun yngri keppendum hvernig sigursælir keppendur gera hlutina.  Níels Salómon, María Guðrún, Aþena Rún og Iðunn Anna fengu öll gull í sínum flokkum, og má geta þess að að jafnaði eru flokkarnir á erlendu mótunum mun stærri en á mótum hérlendis og þannig að sigurvegararnir þurfa að komast í gegnum töluvert fleiri bardaga til að komast á pall.

Ásthildur Emma, Ágúst Örn og Steinunn Selma fengu svo silfur í sínum flokkum, og Sigurjón Kári, enn einn keppandinn hvurs móðir er María Guðrún, fékk bronsverðlaun, en þess má geta að Sigurjón Kári er einungis 7 ára gamall.

En að öðrum úrslitum og sætum ólöstuðum verða tíðindi hópsins um helgina að teljast viðurkenning Vigdísar Helgu sem besti bardagastjóri mótsins á sunnudeginum.  Vigdís Helga, sem er 16 ára gömul og hefur getið sér gott orð sem besti bardagastjóri (dómari) landsins, ákvað að geyma keppnisgallann ofan í tösku á sunnudeginum og taka frekar að sér dómgæslu á mótinu.  Við sem Vigdísi þekkjum vitum að sama hvaða keppendur um ræðir, unga eða aldna, reynda eða óreynda, stóra eða litla, þá hlýða allir Vigdísi inni á vellinum og það möglunarlaust.  Vigdís hélt uppteknum hætti í Manchester og dæmdi alla sína bardaga af stakri röggsemi og var í lok dags, eins og áður segir, valin besti dómari mótsins, sem er gríðarlegur heiður á svona stóru móti þar sem svo margir reyndir keppendur og dómarar koma saman, auk þess sem þetta er í fyrsta skipti sem Vigdís dæmir á erlendri grundu.  Frammistaða hennar vakti mikla athygli í bardagahöllinni og var það mál manna að hún eigi heima á Ólympíuleikum framtíðarinnar í dómgæslu, slík er náttúruleg hæfni hennar í að stjórna bardögum í þessari krefjandi grein.

Við erum óskaplega stolt af keppendum okkar sem voru landi og félagi til mikils sóma og er árangurinn enn ein staðfestingin á því að Afturelding er orðið að öflugasta félagi landsins í taekwondo.  Við höfum gríðarlega stóran hóp iðkenda allt frá byrjendum á leikskólaaldri upp í sjóað landsliðsfólk á fullorðinsaldri sem gerir sig gilandi á hverju erlendu stórmótinu á fætur öðru.

Áfram við!