Vegna frumvarps um bann á dekkjakurli á gervigrasvöllum

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Bæjarráð tók fyrir minnisblað frá Umhverfisstjóra á vegna vegna þingsályktunartillögu um notkun gúmmíkurls úr dekkjum á leik- og íþróttasvæðum á fundi sínum þann 7. apríl sl. 
Mosfellsbær telur mikilvægt að bíða niðurstöðu mælinga og rannsókna Umhverfisstofnunar á skaðsemi gúmmíkurls áður en ákvörðun verður tekin um blátt bann við notkun þess á þeim svæðum þar sem það er þegar í notkun. Jafnframt skuli lögð áhersla á að tryggja að þau efni sem notuð verði í staðinn verði betri en þau sem verið er að skipta út. Mosfellsbær eigi að stefna að því að skipta út gúmmíkurli fyrir hættuminni efni, við fyrsta mögulega tækifæri í samræmi við leiðbeiningar Umhverfisstofnunar.
Umhverfisstofnun tók m.a. sýni á sparkvöllum við Varmárskóla og á Varmársvæði. Niðurstöðu sýnatökunnar er að vænta 2. maí nk. Endurnýjun á gervigrasi á stærri vellinum á Varmársvæði er fyrirhuguð á næstu 1-2 árum, en á honum er húðað gúmmíkurl sem á skv. upplýsingum frá framleiðanda að vera umhverfisvænna og minna um skaðleg efni.
Í því tilfelli er mikilvægt að fá upplýsingar um það hvort ástæða sé að fjarlægja gúmmíkurlið nú þegar af heilsufarsástæðum, eða hvort mögulegt sé að fylgja fyrri áformum um endurnýjun á gúmmíkurli á sama tíma og skipt verður um gervigras á vellinum, á næsta eða þarnæsta ári. Við endurnýjun á gervigrasinu mun verða hugað sérstaklega að því að velja undirlag við hæfi sem uppfylli ströngustu skilyrði.
Mosfellsbær fylgist vel með framvindu málsins. Málið er enn til umræðu í Umhverfis og samgöngunefnd Alþingis. Eins hefur Samband íslenskra sveitarfélaga tekið málið til umfjöllunar og lagt áherslu á að ákvörðun Alþingis verði að fylgja leiðbeiningar um hvaða efni er æskilegt að nota í stað þess sem verður bannað áður en sveitarfélög ráðast í framkvæmdir.