Ungmennafélagið Afturelding fagnar þeirri umræðu sem fylgt hefur #metoo herferðinni og þakkar þeim einstaklingum sem þar hafa komið fram með frásagnir sínar fyrir frumkvæðið og hugrekkið sem þeir hafa sýnt, með því að skýra frá þessum alvarlegu málum og vekja upp nauðsynlega umræðu um vandann. Afturelding harmar að einstaklingar innan íþróttahreyfingarinnar hafi mátt þola ofbeldi í tengslum við íþróttastarf.
Aðalstjórn Aftureldingar kom saman þriðjudaginn 16. janúar til að yfirfara verkferla félagsins að málum sem snúa að einelti og kynferðislegu ofbeldi. Félagið er með verkferla sem taka á málum sem þessum og er þeim vísað til siðanefndar félagsins. Siðareglur félagsins voru yfirfarnar og samþykktar þann 29. mars árið 2012.
Siðareglur félagsins má finna hér.Verkferlill siðanefndar má sjá hér.
Félagið mun jafnframt ráðast í átak á þessu ári við að kanna sakavottorð allra þjálfara og starfsmanna félagsins. Óskað verður eftir upplýsingum um sakavottorð allra nýrra þjálfara/starfsmanna Aftureldingar. Er það liður í að tryggja að hjá félaginu starfi ekki aðilar sem hafi hlotið dóm fyrir kynferðis- eða ofbeldisbrot.
Afturelding tekur undir með ÍSÍ og UMFÍ og fordæmir með öllu allt ofbeldi í starfsemi íþróttahreyfingarinnar. Slík hegðun hefur aldrei, er ekki og mun aldrei vera neitt annað en óásættanleg og ólíðandi.
Í sameiningu leitumst við við að útrýma kynferðislegri og kynbundinni misnotkun og áreitni. Því hvetjum við alla til þess að upplýsa um óviðeigandi hegðun hvort sem er innan eða utan íþróttahreyfingarinnar. Hjá Aftureldingu er hægt að eiga trúnaðarsamtöl við framkvæmdastjóra eða formann félagsins komi upp atvik af þessu tagi svo hægt sé að bregðast við.
F.h. aðalstjórnar Aftureldingar,
Dagný Kristinsdóttir formaður