Jón Júlíus ráðinn framkvæmdarstjóri UMFA

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Jón Júlíus Karlsson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Ungmennafélagsins Aftureldingar og var hann valinn úr hópi 22 umsækjenda. Jón Júlíus er 29 ára gamall og ólst upp í Grindavík. Hann hefur undanfarin ár starfað sem markaðs- og skrifstofustjóri Golfklúbbsins Odds í Garðabæ.

Jón Júlíus er með BA-gráðu í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MPA-gráðu í opinberri stjórnsýslu frá sama skóla. Jón Júlíus var mótsstjóri á Evrópumóti kvennalandsliða sem fram fór hjá Golfklúbbnum Oddi sl. sumar en það er stærsta alþjóðalega golfmót sem haldið hefur verið á Íslandi. Hann hefur einnig starfað síðustu misseri sem íþróttafréttamaður á RÚV en var þar áður fréttamaður á Stöð 2.

„Ég er þakklátur fyrir það tækifæri að fá að stýra einu af stærstu íþróttafélögum landsins. Það eru spennandi tímar framundan hjá Aftureldingu. Mosfellsbær stækkar ört og má gera ráð fyrir að iðkendum hjá félaginu fjölgi samfara því. Ég hlakka til að hefjast handa og um leið kynnast öllu því frábæra fólki sem starfar í kringum Aftureldingu,“ segir Jón Júlíus.

Jón Júlíus tekur til starfa hjá félaginu 2. janúar næstkomandi.