Ágætu bæjarfulltrúar,
Fyrir hönd Ungmennafélagsins Aftureldingar óskum við nýkjörnum bæjarfulltrúum til hamingju með kjörið og óskum ykkur velfarnaðar í störfum ykkar í þágu íbúa Mosfellsbæjar. Um leið þökkum við fráfarandi bæjarfulltrúum starfið á kjörtímabilinu sem er að ljúka með von um velfarnað í nýjum verkefnum á öðrum vettvangi. Jafnframt viljum við nota tækifærið og þakka sérstaklega þátttöku framboða á íbúafundi um íþróttamál sem Afturelding stóð fyrir í Hlégarði þann 15. maí sl. Ljóst má vera af málflutningi ykkar þar að félagið og hagsmunir þess skipa stóran sess í hugum ykkar allra og því má gera ráð fyrir að málefni Aftureldingar verði ofarlega á blaði á komandi kjörtímabili.
Afturelding gegnir mikilvægri samfélagsþjónustu í Mosfellsbæ og innan félagsins er boðið upp á metnaðarfullt og gróskumikið starf hjá tíu deildum félagsins þar sem unnið er samkvæmt markmiðum félagsins sem fela í sér annars vegar uppeldis- og lýðheilsustefnu og hins vegar afreks- og keppnisstefnu. Félagið er stærsti og mikilvægasti vettvangur íþrótta- og tómstundastarfs í sveitarfélaginu og skráðir iðkendur í barna- og unglingastarfi félagsins eru um 1.100. Alls eru iðkendur íþrótta undir merkjum Aftureldingar um 1.300 talsins. Auk þess starfa hátt í 100 þjálfarar og starfsmenn hjá félaginu en þá er ótalinn fjöldi sjálfboðaliða, mikilvægasti auður félagsins sem við erum mjög stolt af.
Aðstöðumál Aftureldingar eru okkur mjög hugleikin og öllum má vera ljóst að þar vantar upp á að félagið standist samanburð við önnur íþróttafélög. Því miður hefur Afturelding dregist aftur úr á síðustu árum og nú er svo komið að ekki verður lengur við unað. Við höfum því miklar væntingar um að snúið verði við blaði og uppbygging og viðhald íþróttaaðstöðu að Varmá verði sett í forgang. Mjög mikilvægt er að gerð verði úttekt á ástandi íþróttamannvirkja og hún lögð til grundvallar við forgangsröðun viðhalds sem er orðið aðkallandi á mörgum sviðum. Jafnframt er nauðsynlegt hafist verði handa við stefnumörkun í uppbyggingu íþróttamannvirkja sem unnið verði eftir á næstu árum. Hvoru tveggja eru nauðsynlegir hornsteinar ef takast á að snúa vörn í sókn í aðstöðumálum Aftureldingar á komandi árum og mikilvægt að góð samvinna verði þar um.
Á formannafundi Aftureldingar þann 17. maí sl. var samþykkt samhljóða eftirfarandi ályktun:
„Formenn deilda Aftureldingar hafna fjárhæðum í tilboði Mosfellsbæjar sem lagt var fram sem endapunktur í samningsferlinu í tölvupósti þann 30. apríl sl. Fundurinn skorar á fulltrúa Mosfellsbæjar að samþykkja framlagðar fjárhæðir í tillögu fulltrúa Aftureldingar. Fjárhæðir í henni eru hófstilltar og raunhæfar sem framhald af fyrri samningi. Fundurinn hvetur bæjaryfirvöld til að setjast að samningaborðinu og ljúka samningi hið fyrsta á grundvelli fyrirliggjandi samningsdraga að fjárhæðum undanskildum. Þar verði Mosfellsbær að koma til móts við kröfur Aftureldingar og helst bæta um betur og sýna þannig í verki vilja sinn til að styðja betur við öflugt íþróttastarf innan deilda Aftureldingar.“
Ályktunin var samþykkt á grundvelli kynningar á samningaviðræðum sem haldin var fyrir formenn deilda félagsins. Viðræður hafa staðið yfir með hléum frá því í desember en fyrri samningur rann út um áramótin. Aðalstjórn Aftureldingar biðlar til bæjarfulltrúa að viðræður hefjist aftur hið fyrsta og nýr samningur verði undirritaður fljótt á forsendum sem báðir samningsaðilar geti við unað.
Ungmennafélagið Afturelding er meðal elstu íþróttafélaga landsins og hefur starfað samkvæmt upphaflegu grunnskipulagi Ungmennafélags Íslands lengur en elstu stjórnmálaflokkar landsins. Það er óumdeilt að íþróttir skipa mikilvægan sess og eru hornsteinn hvers samfélags. Þær eru mjög mikilvægur þáttur í uppeldi barna og unglinga og forvarnargildi þeirra hefur sannað gildi sitt. Auk þess hafa rannsóknir sýnt fram á sterka fylgni milli hreyfingar og námsárangurs. Stuðningur Mosfellsbæjar við grasrótarstarf undir merkjum Aftureldingar leggur grunninn að því að öflugt íþrótta- og uppeldisstarf haldi áfram að vaxa og dafna í Mosfellsbæ. Því biðlum við til ykkar kæru bæjarfulltrúar að sýna félaginu stuðning í verki og vinna með sjálfboðaliðum félagsins að stærstu og mikilvægustu hagsmunamálum þess á nýju kjörtímabili. Takist okkur það er framtíð Aftureldingar björt.
Með Aftureldingarkveðju,
f.h. aðalstjórnar Aftureldingar
Birna Kristín Jónsdóttir, formaður
Bréf sent bæjarfulltrúm Mosfellsbæjar þann 6. júní 2018