Bæjaryfirvöld hafa ákveðið að reisa 1200 m² viðbyggingu við íþróttahúsið að Varmá og er gert ráð fyrir að byggingin verði tilbúin til notkunar um áramótin 2012/13.
Aðalstjórn Aftureldingar hafði um langa hríð unnið að því að ráða bót á bráðahúsnæðisvanda félagsins og lagði m.a. til að húsnæði yrði leigt undir stafsemi bardagadeilda og fimleika þar sem ekki virtist möguleiki á nýbyggingu. Niðurstaða bæjarins, eftir að leigumöguleikar voru bornir saman við nýbyggingu, var að hagkvæmara yrði að reisa stálgrindarviðbyggingu að Varmá. Það hefur ætíð verið vilji forystufólks Aftureldingar að byggja upp aðstöðuna á íþróttasvæðinu sjálfu og er það fagnaðarefni að af því verður nú. Þó sérstaklega sé gert ráð fyrir því að bardagadeildir og fimleikar njóti aðstöðunnar í nýja salnum þá rýmkast um aðra starfsemi í húsinu og félagið í heild nýtur góðs af. Þessi ráðstöfun mun án efa efla íþróttastarf, samstarf innan félags og Aftureldingarhjartað og þannig efla enn meir þann félagsauð sem Afturelding býr yfir.
Með tilkomu þessa nýja íþróttasalar opnast einnig möguleiki á öflugra félagsstarfi, þ.e. ef milliloft verður sett upp strax við byggingu hússins eins og félagið hefur óskað eftir. Þá hefur aðalstjórn vilyrði fyrir því að þegar þessum framkvæmdum verði lokið fái félagið langþráða og löngu tímabæra skrifstofuaðstöðu fyrir starfsfólk félagsins.
Í samhengi við þessa framkvæmd hafa bæjaryfirvöld samþykkt að hefja vinnu við framtíðarskipulag íþróttasvæðisins að Varmá í samstarfi við félagið eins og félagið hefur óskað eftir. Sú ákvörðun er sérstakt fagnaðarefni og mun sú vinna örugglega skila sér í öflugra félagi og skýrari framtíðarsýn fyrir vöxt og viðgang Ungmennafélagsins Aftureldingar. Áfram Afturelding!