Ungmennafélagið Afturelding og Sideline Sports hafa gert með sér þriggja ára samstarfssamning um notkun Aftureldingar á hugbúnaði frá Sideline Sports. Fyrirtækið hefur um árabil boðið íþróttafélögum um allan heim upp á hugbúnað sem nýtist vel við skipulagningu á íþróttastarfi og til leikgreiningar.
Nýr samningur á milli Aftureldingar og Sideline Sports gerir öllum þjálfurum Aftureldingar kleift að vinna með Sideline í sínu starfi sem mun hjálpa félaginu við efla umgjörð, skipulag og gæði í kringum íþróttastarf félagsins.
Jafnframt mun Afturelding taka í notkun nýjan samskiptahluta í vörulínu Sideline. Samskiptahlutinn er ekki síst mikilvægur en með honum geta þjálfarar, iðkendur og forráðamenn haft yfirsýn með starfi Aftureldingar í gegnum app í snjallsíma eða spjaldtölvu. Með Sideline appinu verður með einföldum hætti hægt að hafa yfirsýn yfir æfingar, mætingar og margt fleira. Þjálfari getur með einföldum hætti sent út tilkynningar og haft samskipti við iðkendur eða forráðamenn.
Markmiðið með innleiðingu á þessum samskiptahluta er að draga verulega út notkun á hópsíðum á Facebook sem mörg íþróttafélög hafa reitt sig á til að halda utan um íþróttastarf flokka. Notkun á samskiptahluta Sideline Sports fer af stað innan deilda Aftureldingar um næstu mánaðarmót. Með því að taka í noktun þessa nýjung frá Sideline gefst félaginu tækifæri á að efla verulega upplýsingagjöf til iðkenda og forráðamanna.
„Ungmennafélagið Afturelding fer fullt tilhlökkunar til samstarfs við Sideline Sports og erum við þess fullviss um að samstarfið muni efla starf félagsins,“ segir Birna Kristín Jónsdóttir, formaður Aftureldingar.