Árni Bragi og Thelma Dögg íþróttafólk Aftureldingar

Ungmennafélagið AftureldingAfturelding

Árni Bragi Eyjólfsson handknattleiksmaður og Thelma Dögg Grétarsdóttir blakkona voru valin íþróttafólk Aftureldingar á uppskeruhátíð félagsins sem fram fór í Hlégarði þann 2. janúar síðastliðinn.


Árni Bragi er harðduglegur í þróttamaður, öflugur og þroskaður leikmaður og spilar stórt hlutverk í liði mfl. karla hjá Aftureldingu. Hann er 22 ára gamall og átti stóran þátt í frábærum árangri Aftureldingar í Olídeildinni á síðasta tímabili, og hefur spilað mjög vel með toppliði Aftureldingar það sem af er tímabils, og er með markahæstu mönnum í Olísdeild karla.

 

Árni Bragi er fjölhæfur og klókur leikmaður og getur spilað bæði sem hornamaður og í hægri skyttu. Hann er jafnframt einn fljótasti og besti hraðaupphlaupsmaður deildarinnar. Árni Bragi var nýlega valinn í úrtakshóp hjá HSÍ í B-landslið Íslands og á hann vonandi góða möguleika á að vera valinn í íslenska A landsliðshópinn á næstu misserum.

Árni Bragi hefur allt til að bera sem góður íþróttamaður þarf að hafa að leiðarljósi til að ná góðum árangri í sinni íþrótt. Hann sinnir æfingum af dugnaði og samviskusemi, er reglusamur og meðvitaður um andlega og líkamlega þætti sem skipta máli í þjálfun og keppni. Hann er metnaðarfullur og kappsamur við að ná markmiðum sínum.


Thelma Dögg Grétarsdóttir hefur æft blak með Aftureldingu frá því hún var 7 ára gömul. Hún hefur verið fastamanneskja í úrvalsdeildarliði deildarinnar frá því að hún var 15 ára gömul og verið með í öllum titlum liðsins frá því að það var stofnað.

Thelma Dögg, sem er 19 ára gömul, hefur spilað með unglingalandsliðum Íslands frá því að hún var 14 ára gömul og síðustu 2 ár verið með A landsliði kvenna. Thelma Dögg er mjög metnaðarfull íþróttamanneskja og stundar íþrótt sína af miklum krafti og áhuga sem smitar út frá sér og markmið hennar eru skýr hvað íþróttina varðar.

Hún náði frábærum árangri á síðustu leiktíð með Afturelding í Mizunodeild kvenna sem vann þrefalt síðustu leiktíð.

Thelma Dögg var valin í lið ársins í deildinni og var stigahæsti leikmaðurinn deildarinnar. Hún er einnig lykilmaður í íslenska landsliðinu og hefur verið boðin fullur námsstyrkur hjá San Jose háskólanum í Bandaríkjunum til að æfa blak samhliða krefjandi námi.